Myndskreyting: ESE

Þeir sem unna skákinni hugástum og hafa teflt lengi sér til ánægju og yndisauka láta ekki deigan síga þó á móti blási. Gott dæmi um það er hinn aldni heiðursmaður ERLINGUR HALLSSON sem nú er fallinn í valinn. Margir þekkja kaupmanninn úr Hallarmúlanum þar sem hann rak verslunina Híbýlaprýði um áratugaskeið.  Fyrstu árin með syni sínum Jónasi Pétri, sem við eldri skákmenn minnumst af söknuði og féll frá 2008, löngu fyrir aldur fram. Enda þótt Erlingur gengi síðustu árin fyrir gufuafli eins og hann orðaði það sjálfur, lungun búin að gefa sig svo hann var háður súrefnisgjöf, kútum milli staða og súrefnisvél á skákstað og heima við, lét hann það  ekki aftra sér að mæta reglulega  til tafls,  galvaskur með bros á vör, með eldri borgurum bæði í Riddaranum, Ásum og Korpúlfum. Áður fyrr með KR og TR lengi vel. Toppstykkið var í góðu lagi og keppnisskapið óskert. Afar eftirminnilegur maður Erlingur, slyngur og harðskeyttur við skákborðið. Útför hans verður gerð í dag frá Grafarvogskirkju.kl. 13 – á sama tíma og Riddarar reitaða borðsins mætast á ný til burtreiða í Vonarhöfn þar sem andi hans og fleiri burtkallaðra aldinna skákkempna mun svífa yfir borðunum. Blessuð sé minning hans.

- Auglýsing -