Vignir Vatnar er í 2.-5. sæti á Evrópumóti ungmenna í flokki keppenda 16 ára og yngri. Eftir sigur í fyrstu þremur skákum sínu gerði Vignir jafntefli við Rússann Salemgarev í fjórðu umferð sem fram fór á fimmtudaginn og var þá í 2.-7. sæti með 3½ vinning. Mótið fer fram í Riga í Lettlandi og keppendur Íslands eru fimm talsins, þar af tvær stúlkur. Reynslan er mikilvæg á þessum vettvangi sem sést best á því að Vignir Vatnar tefldi á EM ungmenna í fyrsta sinn árið 2011, þá átta ára gamall, Gunnar Erik, sem teflir í flokki 12 ára og yngri og er með tvo vinninga af fjórum, var með í fyrra en nýliðarnir, Arnar Milutin í flokki 16 ára og yngri og Anna Katarina Thoroddsen og Soffía Berndsen, sem tefla í flokki stúlkna 10 ára og yngri, hafa aldrei verið með í svo sterku unglingamóti.

Fimm efstir í St. Louis

Það er ekki mikill gáski yfir taflmennsku fremstu skákmanna heims á „ofurskákmótinu“ í St. Louis í Missouriríki Bandaríkjunum. Þegar tefldar hafa verið fimm umferðir af níu er jafnteflishlutfallið 80%, fimm keppendur eru með þrjá vinninga en það eru auk heimsmeistarans Magnúsar Carlsen þeir Caruana, Aronjan, Mamedyarov og Grischuk.

Magnús lagði Karjakin í annarri umferð í 88 leikjum en hefur gert jafntefli í öðrum skákum.

Skák ársins 2018 var tefld í Sánkti Pétursborg

Glæsileg tilþrif komu úr annarri átt í vikunni eins og Ingvar Þ. Jóhannesson fjallaði um á nýrri og glæsilegri heimasíðu skákhreyfingarinnar. Í Sánkti Pétursborg luku keppni á sterku opnu minningarmóti um Viktor Kortsnoj þeir Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson. Hannes fékk sex vinninga af níu og varð í 33. sæti af 268 keppendum og Guðmundur hlaut 5½ vinning og endaði í 55. sæti. Hvít-Rússinn Kirill Stupak sigraði með átta vinninga af níu.

Viðureign sem tefld var í sjöttu umferð hefur lyft þessu móti á hærra plan og margir eru þegar farnir að kalla hana „skák ársins 2018“:

David Paravjan – Savelí Golubov

Petroffs-vörn

1. e4 e5 2. Rf3 Rf6 3. Rxe5 d6 4. Rf3 Rxe4 5. d4 d5 6. Bd3 Bd6 7. 0-0 0-0 8. c4 c6 9. Db3!?

Þekkt afbrigði af Petroffs-vörn þar sem algengara er að leika 9. cxd5, 9. Dc2 eða 9. He1.

9…. dxc4 10. Bxc4 Rd7 11. He1 Rdf6 12. Rbd2 Rxd2 13. Bxd2 Db6 14. Dd3 Dxb2 15. Hab1 Da3 16. Dc2 Rd5?

Hinn stóri afleikur svarts í skákinni, staðan er vel teflanleg eftir 16…. b5.

17. Hb3 Da4 18. Bxd5 cxd5 19. Rg5 g6

20. Rxh7!

Eins og svo oft byggist þessi mannsfórn á valdleysi en meira býr undir, 24…. Kxh7 er vitanlega svarað með 25. Hh3+ og drottningin fellur.

20…. Bf5 21. Rf6+ Kg7 22. Bh6+!

Sama þema og áður, 22…. Kxh6 er svarað með 23. Hh3+ og drottningin fellur. Þetta var þó besti kostur svarts því að eftir 23…. Bxh3 24. Dxa4 Be6 er enn hægt að berjast.

22…. Kxf6? 23. g4!

Frábær leikur. Drottningin er of stór biti að kyngja, 23…. Bxc2 24. Hf3+ Bf5 25. g5 mát.

23…. Bf4 !?

 

 

 

 

 

 

Skemmtilegur varnarleikur en dugar skammt.

24. Dc7!

Kynngimagnaður leikur, 24…. Bxc7 er svarað með 25. g5 mát!

24…. Bxh6 25. De5+ Kg5 26. h4+! Kxh4 27. Hh3+! Kg5 28. De7+!

Lokahnykkurinn kallar fram línurof, svartur gafst upp því að 28…. f6 er svarað með 29. De3+ Kxg5 30. Dg3 mát

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 25. ágúst 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -