Frá EM taflfélaga: Mynd: Heimasíða mótsins

Þegar Víkingaklúbburinn vinnur á EM taflfélaga þá tapar Taflfélag Reykjavíkur og þegar TR vinnur þá tapa Víkingar. Þannig hafa hlutirnir gengið fyrir sig í Porto Carras í fyrstu  fimm umferðunum. Víkingaklúbburinn vann öruggan, 4-2, sigur á Hvítu riddurunum frá Wales (ekki Mosfellsbæ) í gær en TR tapaði fyrir norsku Norðurstrandamönnunum. Hjá Víkingum unnu Björn Þorfinnsson, Davíð Kjartansson og Halldór Pálsson sínar skákir. Sá síðastnefndi sína þriðju skák í röð.

Taflfélag Reykjavíkur tapaði 1½-4½ fyrir Skákfélagi Norðurstrandarinnar í Noregi. Arnar E. Gunnarsson vann og Margeir Pétursson gerði jafntefli.

TR er í 24. sæti með 6 stig en Víkingaklúbburinn er í 46. sæti með 4 stig.

Umferð dagsins

Sjötta og næstsíðsta umferð fer fram í dag. TR mætir lettneska taflfélaginu Framlenging (Overtime). Þar teflir Alexander Khalifman (2617) á fyrsta borði en TR-ingar eru stighærri á borðum 2-6.

Víkigaklúbburinn taflir við danska klúbbinn Jetsmark sem er heldur sterkari en Víkingar á skákstigum. Víkingar eru stigahærri á 2.-3. borði en Danirnir á öðrum borðum.

Um mótið

Evrópukeppni taflfélaga fer fram í Porto Carras í Grikklandi. Tvö íslensk taflfélög taka þátt. Annars vegar eru það Íslandsmeistarar Víkingaklúbbbins og hins vegar Taflfélag Reykjavíkur. TR sendir sterkt lið til leiks. Lið þeirra hefur meðalstigin 2419 og er hið 19. stigahæsta af 61 sveit. Lið Víkingaklúbbins er töluvert lakara. Meðalstigin eru 2178 skákstig og er liðið nr. 47 í styrkleikaröðinni.

- Auglýsing -