Enginn leið var að skilja á milli þeirra Magnus Carlsen og Fabiano Caruana í klassískri skák. Tólf skákir og tólf jafntefli!

Það tók ríkjandi heimsmeistara hinsvegar ekki langan tíma að sýna hver væri kóngurinn í atskákunum og strax í fyrstu skák sýndi Magnus það sem flestir bjuggust við í sjálfu einvíginu.

Þrátt fyrir að uppskipti yrðu á drottningum snemma í fyrstu atskákinni hafði Magnus mikla stöðulega yfirburði

Ef hvítur nær að vinna c-peðið er svartur sá eini sem hefur einhverja veikleika á borðinu og hvítur hefur biskupaparið. Mjög þægilegt tafl á hvítan og Carlsen náði að setja pressu á Caruana sem sá eina kostinn í stöðunni að fara í hróksendatafl peði undir. Líklegast átti Fabi vörn í hróksendataflinu og mögulega hefði hann fundið vörnina í kappskák en með klukkuna tifandi fann hann ekki réttu vörnina og Carlsen náði að láta umframpeðið telja.

Fyrsta bráðabanaskákin skýrð af Ingvar Jóhannessyni:

Staðan í bráðabana: Magnus 1 – Fabiano 0

Skák númer tvö í bráðabana og Caruana hafði nú hvítu mennina. Enn eina ferðina sáum við 1.e4 og þrátt fyrir að hafa unnið fyrstu skákina hélt Carlsen sig enn og aftur við Sikileyjarvörnin og Sveshnikov afbrigðið. Margir hefðu haldið að nú væri tími á að vera “solid” og leika 1…e5 en Carlsen greinilega með tröllatrú á sínum undirbúningi.

Eftir byrjun sem svipaði nokkuð til 12. skákarinnar lék Carlsen …Df5 og virtist vera við það að leysa öll vandamálin í stöðunni. Hvítur hefði líklegast getað haldið aðeins betra tafli með leikjum á borð við stutta hrókun og jafnvel f3 en Fabiano fannst að hann þyrfti að láta til skarar skríða og lék c5. Þetta reyndist tvíeggjuð ákvörðun sem snerist fljótlega í höndunum á Bandaríkjamanninum og Norðmaðurinn tók fljótlega öll völd og vann skákina!

Skák #2 í bráðabana skýrð af Ingvar Þór Jóhannessyni

 

Staðan því 2-0 fyrir Magnus og góð ráð dýr fyrir Fabiano!

Magnus hafði hvítt í þriðju skákinni og þurfti aðeins jafntefli. Hann hóf því leik með 1.e4 og ljóst að uppáhaldsvopn Caruana, Petroffs-vörn dugði skammt þar sem hvítur getur auðveldlega stýrt því í mjög jafnteflislegt tafl. Fabiano valdi því Sikileyjarvörnina.

Skemmst er frá því að segja að Magnus tefldi ótrúlega traust og Fabiano fékk aldrei möguleika á að flækja taflið eða fá einhverja sóknarmöguleika.

Eftir Dc5 hjá Carlsen var ljóst að heimsmeistaratitilinn var ekki að fara neitt, hann verður áfram í Noregi. Ný drottning að koma á c8 og svartur á ekki einu sinni þráskák. 3-0 sigur hjá Magnusi og menn verða líklegast fljótir að gleyma og/eða samþykkja ákvörðun Magnusar í 12. skákinni að stýra öllu batteríinu yfir í atskákirnar!

Þriðja skákin með skýringum frá Ingvari

Augnablikið þegar Magnús kláraði dæmið:

Nýkrýndur heimsmeistari ásamt forseta S.Í.

Íslenskir skákmenn komu saman á Bryggjunni Brugghús og fylgdust með bráðabananum. Að honum loknum voru tekin viðtöl af RÚV og Stöð2. Stöð2 tók viðtal við Braga Þorfinnsson en RÚV við Ingvar Þór Jóhannesson. Viðtal RÚV er hér að neðan.

Frétt og viðtal RÚV

Erlendir miðlar:

Grein Chess.com

Guardian

NPR

NBC News

- Auglýsing -