Norðmaðurinn Magnus Carlsen varði heimsmeistaratitil sinn í skák í þriðja sinn í dag. Hann hafði betur gegn Bandaríkjamanninum Fabiano Caruana í bráðabana sem fram fór í Lundúnum. Magnus skildi ekkert eftir á borðinu og kláraði Bandaríkjamanninn 3-0 í bráðabananum!
Tólf kappskákir dugðu ekki til þess að finna siguvegara en Carlsen kæfði í raun gagnrýnisraddir með öruggum 3-0 sigri í atskákunum. Norðmaðurinn hafði hvítt í fyrstu skákinni og tefldi enska leikinn og fékk snemma upp stöðu sem hentaði honum mjög vel. Heimsmeistarinn fórnaði peði en fórnarkostnaðurinn við að hanga á peðinu var of dýrkeyptur fyrir áskorandann og á endanum fékk Carlsen upp hróksendatafl þar sem hann var peði yfir. Þessir yfirburðir dugðu til sigurs þar sem Carlsen tefldi endataflið nánast eins og tölva og tók 1-0 forystu.
Caruana fann því strax fyrir pressu og varð í raun að reyna eitthvað með hvítu mönnunum. Carlsen tefldi aftur Sveshnikov og endurtekning var á 12. skákinni fyrir utan að Carlsen var fyrr til að breyta útaf með leiknum …Dd8 og upp kom strategísk staða í miklu ójafnvægi. Carlsen hafði mun betur í flækjunum og áskorandinn varð að játa sig sigraðann aftur og Carlsen því kominn í þægilega forystu eftir tvær fyrstu skákirnar.

Þriðja skákin var því í raun formsatriði þar sem Carlsen hafði hvítt. Hann lék 1.e4 og setti strax pressu á Caruana þar sem hans helst vopn, Petroff er í raun aðeins jafnteflisbyrjun. Caruana varð því að tefla 1…c5, Sikileyjarvörn og leið sjáanlega ekkert alltof vel. Carlsen tók engar áhættur og Caruana náði aldrei að skapa neinu hættu fyrir meistarann sem á endanum vann skákina og öruggan 3-0 sigur í atskákunum!

 

Nánar um skákirnar síðar!

- Auglýsing -