Frá mótinu: Mynd: ESE

Mótaröðinni um SKÁKSEGLIÐ á vegum RIDDARANS, skákklúbbs eldri borgara á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, lauk í síðustu viku. Keppin er haldin árlega í minningu þeirra mörgu og mætu félaga „sem  lokið hafa  siglingu sinni um hugans djúpu höf“  – um óravíddir manntaflsins“ – eins og segir silfurskildi verðlaunastyttunnar,  .

Hátt á annan tug af fastafélögum klúbbsins hafa burtkallast á liðnum 20 árum eða frá því klúbburinn var stofnaður og nokkrir aðrir helst úr lestinni vegna heilsubrests eða af öðrum orsökum, Áhugasamir yngri skákmenn hafa fyllt hin stóru skörð eftir þvi sem þeir hafa náð aldri til eins og gengur, sem er huggun harmi gegn.

Keppnin sem fór fram með GrandPrix sniði þar sem sem þrjú bestu mót hvers keppanda töldu til stiga og vinnings eftir sætum (10-8-6-5-4-3-2-1) . Þátttaka var góð.

Gunnar Gunnarsson kampakátur með Skákseglið! Mynd: ESE

Það var enginn annar en hinn aldni meistari Gunnar Kr. Gunnarsson, 85 ára, sem vann með fullu húsi,  Sigraði á fyrstu þrem mótunum með glæsibrag.  Hlaut 10.5v -10.5v – 8v. af 11 mögulegum í hverju móti sem þýddi 30 stig svo enginn gat ógnað ótvíræðum sigri hans. Annar í röðinni varð Guðfinnur R. Kjartansson, með 23 stig en hann vann lokamótið. Stefán Þormar Guðmundsson varð í þriðja sæti með 20 stig. Gunni Gunn er fyrrv. Íslandsmeistari á skák (1964) og knattspyrnu (1954), sem sagðar eru vera skyldar íþróttir í Mbl. í dag, hvað sem því veldur eða er hæft.

Fyrri sigurvegarar keppninnar hafa orðið þessir:  2009 Sigurður A. Herlufsen; 2010 Þór Valtýsson; 2011 Guðfinnur R. Kjartansson; 2012 Jón Þ. Þór; 2013 Guðfinnur R. Kjartansson; 2014 Friðgeir K. Hólm; 2015 Ingimar Halldórsson; 2016 Björgvin Víglundsson; 2017 Ingimar Halldórsson.

20 ára afmælismót og jólafagnaður Riddarans verður haldið innan skamms og kynnt fljótlega.  / ESE

- Auglýsing -