—– Uppfært 4. janúar —–

Líkt og áður hefur komið fram kom upp tæknibilun í skák Helga og Caulfields sem varð til þess að skákin fór ekki af stað með eðlilegum hætti. Strax var ákveðið að skákin skildi tefld aftur við fyrsta tækifæri og skal nú upplýst að þeir mættust í morgun og tefldu skákina sem hafði frestast.

Stórmeistarinn Helgi Ólafsson hafði hvítt og það er óhætt að segja að andstæðingur hans sá aldrei til sólar í skákinni. Glæsilegur sigur hjá Helga sem eykur forskot Íslands um heila tvo vinninga! 52,5 – 49,5 sigur því staðreynd.

—–

Skákárinu 2018 lauk með risa viðureign í Heimskeppninni í netskák. Team Iceland tryggði sér sæti í úrslitakeppni um meistaratitilinn fyrir skemmstu, en liðið hafði betur í fimm viðureignum af sjö í deildinni sem lauk nú í desember. Dugði sá árangur til að tryggja liðinu þriðja sætið í deildinni og þar með eitt af hinum eftirsóttu sætum í lokakeppninni. Þar mætir liðið liðum Serbíu, Úkraínu og Rússlands.

Team Iceland er í öðru sæti eftir baráttusigur gegn Rússum

Sunnudaginn 30. desember mætti Team Iceland gríðarlega öflugu liði Rússa í 1. umferð lokakeppninnar. Eins og fyrr sagði tapaði lið Íslands aðeins tveimur viðureignum í deildinni og tapaðist önnur þeirra fyrir Rússlandi og ljóst að liðinu beið erfitt verkefni.

Afar vel gekk að manna liðið og munaði þar miklu um fjölda nýliða sem tóku þátt. Alþjóðlegi stórmeistarinn Helgi Ólafsson fór þar fremstur meðal jafningja en jafnframt munaði miklu um IM Einar Hjalta sem tefldi nú í fyrsta skipti í keppninni ásamt FM Þorsteini Þorsteinssyni. Bættust þeir í hóp þeirra fjölmörgu titilhafa og skákáhugamanna sem hafa teflt með liðinu í vetur en nafnalistinn er svo langur að það væri til að æra óstöðugan að þylja hann upp hér. Allir fá þó bestu þakkir fyrir þátttökuna í vetur og vonandi í næstu viðureignum sem verða ekki minna spennandi en þessari sem er nýlokið.

Viðureignin við Rússa

Líkt og tæpt var á að ofan mætti Team Iceland með gríðarlega öflugt lið og virtist það hafa nokkra yfirburði á allflestum borðum, en teflt var á 51 borði. Rússar hófu leik af miklum krafti og virtust hreinlega ætla að gjörsigra lið Íslands þegar þeir náðu allt að 10 vinninga forskoti á fyrstu mínútum leiksins. Lið Íslands beit þó í skjaldarrendur og jafnaði leikinn í seinni hlutanum og var staðan allt að því hnífjöfn til síðustu skákar, en lið Íslands vann einmitt þá skák og landaði ótrúlegum 51,5 – 50,5 sigri á stórveldinu! Frábær baráttusigur í viðureign þar sem hver einasti liðsmaður var lykilmaður og hver einasta sigurskák sú sem réði úrslitum!

Sigurinn hefði hugsanlega orðið stærri ef hefði ekki verið fyrir tæknibilun sem olli því að seinni skák Helga Ólafssonar fór ekki af stað og tapaðist hún því á tíma án þess að hann fengi rönd við reist. Afar leiðinlegt tilvik sem rakið verður til bilunar í kerfinu hjá Chess.com.

Team Iceland tryggði sér 2 mikilvæg stig í baráttunni um titilinn og er nú í 2. sæti með 7 stig.

Skoða má viðureignina nánar hér.

Næst á dagskrá

Næst á dagskrá er svo annar risaslagur, en sunnudaginn 13. janúar mætir Team Iceland meisturunum sjálfum frá Úkraínu. Viðureignin verður nánar kynnt fljótlega.

TENGLAR

  • Heimasíða Team Iceland á Facebook: Hér
  • Allar viðureignir Team Iceland til þessa: Hér
  • Meðlimir Team Iceland: Hér
  • Leifturskákin, staða og pörun: Hér
  • Hraðskákin, staða og pörun: Hér
  • Reglur LCWL: Hér
- Auglýsing -