Einbeittur Hannes Hlífar Stefánsson við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hannes Hlífar Stefánsson átti sitt besta mót í langan tíma þegar hann sigraði á opna mótinu í Prag sem lauk um síðustu helgi. Hannes hlaut 7½ vinning af níu mögulegum og varð ½ vinningi fyrir ofan sex skákmenn sem hlutu 7 vinninga en samkvæmt mótsstigum voru það Úkraínumennirnir Zubov, Gasanov og Bakhtmaskí. Viðureignir Hannesar við þá voru viðburðaríkar og réðu miklu um gengi hans. Hann þurfti jafntefli í lokaumferðinni til að vinna mótið og þeim úrslitum náði hann án mikilla vandkvæða með svörtu gegn stigahæsta keppandanum, Alexander Zubov.

Árangur Hannesar reiknast upp á 2.710 Elo-stig og hækkar hann um 21 Elo-stig fyrir frammistöðuna. Í skákinni sem hér fer á eftir reynist það andstæðingi Hannesar um megn að tengja saman krafta liðsafla síns en betra samræmi er hjá Hannesi, sem nær að þrefalda á e-línunni og ráðast síðan á veikleikana í peðastöðu hvíts:

Alþjóðlega mótið í Prag 2019; 7. umferð:

Vitalí Sivjúk – Hannes Hlífar Stefánsson

Vínartafl

1.e4 e5 2. Rc3 Rf6 3. g3

Fremur sjaldséð leið en svona vann nú samt Spasskí kappa á borð við Kortsnoj og Gligoric endur fyrir löngu.

3….d5 4. exd5 Rxd5 5. Bg2 Rxc3 6. bxc3 Bc5 7. Rf3 Rc6 8. 0-0 0-0. He1 Bb6 10. Rxe5?!

Ónákvæmur leikur sem byggist á lélegu stöðumati. 10. d3 eða 10. d4 eru betri valkostir.

10…. Bxf2+

Einnig kom til greina 11…. Rxe5 11. Hxe5 og nú 11…. Bxf2+.

11. Kxf2 Rxe5 12. d4

Vitaskuld ekki 12. Hxe5 Df6+ og hrókurinn fellur óbættur.

12…. Rc4 13. Dd3 Rd6 14. He5?!

Hindrar 14…. Bf5 en gefur eftir c4-reitinn.

14…. Be6 15. Ba3 Dd7 16. Bxd6 cxd6 17. Hb5 Hab8 18. a4

Gott dæmi um yfirborðskennda taflmennsku. Hvítur hefur enga raunverulega pressu á b7-peðið.

18…. Hfc8!

Hótar 19…. Bc4.

19. Hh5 h6 20. h3 Dc7 21. Ha3 Bc4 22. Dd2 He8 23. Bf3 He6!

Mynd sem talar sínu máli. Menn hvíts eru á víð og dreif en svartur er þess albúinn að ráðast inn eftir e-línunni.

24. Ha1 Hbe8 25. Kg1 He3 26. Hf5 Dd7 27. g4 De7 28. He5

Smá glenna sem engu breytir, svartur hótaði m.a. 28…. g6 29. Hf4 Dg5 o.s.frv.

28…. Hxe5 29. dxe5 Dxe5 30. Kg2 b6 31. Dd4 Dxd4 32. cxd4 He3 33. a5 b5 34. a6 Kf8 35. Bc6 He2 36. Kg3 Hxc2 37. Hb1 Ba2

– og hvítur gafst upp. Framhaldið gæti orðið 38. Ha1 b4 o.s.frv.

Sigur Hannesar hefði getað orðið enn stærri því að í 8. umferð missti hann gjörunnið tafl niður í jafntefli gegn Indverjanum Stany.

Alþjóðlega mótið í Prag 2019; 8. umferð:

Hannes – Stany

Þessi staða kom upp eftir 43. leik svarts, g6-g5. Hannes er búinn að tefla skínandi vel og Indverjinn er við það að „kasta inn handklæðinu“. Vonin eina liggur í c-peðinu en langeinfaldast er að leika 44. d7+! Kf7 45. Bxg5 og vinnur því a 45…. Bxg5 er svarað með 46. d8(D)+. Hann getur reynt 45…. c2 en þá er falleg vinningsleið: 46. Bxd8! c1(D) 47. Bg5! Dc5 48. d8(D) Dxa7 49. Df6+ Kg8 50 Bh6! og mátar.

Hannes lék hins vegar 44. Hxh7 sem hótar 45. d7 mát og svartur varðist með 44…. Bf6 sem Hannes hefði átt að svara með 45. Hc7 sem vinnur létt. Hann valdi hins vegar 45. Bg7?? en þá kom 45…. Bxg7 46. Hxg7 Bf7! og nú varð hvítur að sætta sig við jafntefli með 47. d7+ Kd8 48. Hxf7 c2 því að hann á ekkert betra en skákir eftir f-línunni.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 23. mars 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -