Skólaskákmót Reykjavíkur fór fram síðasta dag aprílmánaðar og var teflt á sal Laugalækjarskóla. Keppt var í yngri og eldri flokki og væru nær allir sterkustu skákmenn reykvískra grunnskóla mættir til leiks. Þrjú sæti á landsmóti voru í boði í eldri flokki og tvö í yngri.

Mikil spenna á Landsmótinu.

Í eldri flokki mátti fyrirfram búast við því að keppnin um sigurinn stæði milli Óskars Víkings Davíðssonar Ölduselsskóla og Alexanders Olivers Mai Laugalækjarskóla. Sú varð raunin og fór svo að þeir komu jafnir í mark að vinningum en Óskar Víkingur varð efri á stigum og því Skólaskákmeistari Reykjavíkur í eldri flokki árið 2019. Í þriðja sæti varð Árni Ólafsson Hlíðaskóla sem með því tryggði sér rétt á landsmótinu í skólaskák sem fram fer komandi helgi.

Lokastaðana á Chess-Results.

Í yngri flokki mátti búast við því að allnokkrir skákmenn gætu blandað sér í toppbaráttuna. Fljótlega tók Stefán Orri Davíðsson Ölduselsskóla forystuna sem hann hélt allt mótið þó svo að Batel Haile Goitom Hólabrekkuskóla hafi náð honum að vinningum að lokum. Stefán var ofar á stigum og því Skólaskákmeistari Reykjavíkur í yngri flokki fyrir árið 2019. Batel varð önnur og Benedikt Þórisson Austurbæjarskóla þriðji.

Lokastaðan á Chess-Results

Bræðurnir Óskar Víkingur og Stefán Orri eru einnig afreksmenn í körfubolta og gefa eftir sæti sín á landsmótinu um komandi helgi vegna úrslitakeppni og landsliðsverkefna. Því komast Gestur Andri Brodman Laugalækjarskóla og áðurnefndur Benedikt á landsmótið.

 

- Auglýsing -