Jóhann Hjartarson við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Íslenska liðið sem tefldi í flokki skákmanna 50 ára og eldri á HM öldungasveita á grísku eyjunni Ródos hafnaði í í 3.-6. sæti með 12 stig. Eftir stigaútreikning raðast liðið í 5. sæti. Það eru ákveðin vonbrigði því að sigur í síðustu umferð í viðureigninni við Ísrael hefði þýtt silfurverðlaun og jafntefli brons. Um tíma var staðan 1½:½ okkur í vil og hagstæðar stöður uppi í viðureignum Jóhanns Hjartarsonar og Margeirs Péturssonar en þær töpuðust báðar.

Bandaríkjamenn unnu yfirburðasigur á mótinu, hlutu 17 stig, Ítalir urðu í 2. sæti með 14 stig og Ísraelsmenn fengu svo bronsið. Íslenska sveitin var skipuð greinarhöfundi, sem fékk silfur fyrir næstbesta árangur 1. borðsmanna, Jóhanni Hjartarsyni, Margeiri Péturssyni, Jóni L. Árnasyni og Þresti Þórhallssyni, sem fékk silfurverðlaun fyrir góða frammistöðu meðal 5. borðsmanna.

Sveitin sem tefldi í flokki skákmanna 65 ára og eldri var skipuð Áskeli Erni Kárasyni, Kristjáni Guðmundssyni, Björgvini Víglundssyni, Braga Halldórssyni og Jóni Kristinssyni, sem fékk silfur fyrir frammistöðu á 5. borði. Sveitin hlaut 11 stig og náði sjötta sæti á stigum. Rússar unnu með 14 sig, Englendingar komu næstir og Frakkar í 3. sæti.

Skáksalurinn á Ródos bókstaflega ólgaði af sögulegum vísunum. Forvitnileg var t.d. viðureign okkar í 50+ flokknum við kvennasveit Rússa. Þar mætti Margeir Pétursson hinni 81 árs gömlu Valentinu Koslovskaju, fyrrum Sovétmeistara meðal kvenna sem á langa afrekaskrá og er ekkja Igor Bondarevskí sem gerði Boris Spasskí að heimsmeistara. Gegn Margeiri lagðist hún strax í krappa vörn. Sat og varðist og stóð aldrei upp frá borðinu í þá meira en fimm klukkutíma sem viðureignin stóð. Umsátri Margeirs lauk um síðir og þá brast á gagnsókn Koslovskaju og voru menn sammála um Margeir hefði sloppið vel með jafntefli.

Besti sigur okkar var gegn Armenum í 7. umferð, 2½: 1½. Þar tókst Jóhanni Hjartarsyni að vinna þann sem árið 1991 varð síðasti Sovétmeistarinn:

HM 2019 öldungasveita, 50+, 7. umferð:

Artashes Minasjan – Jóhann Hjartarson

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 d6 6. Bb3 h6 7. Rbd2 O-O 8. O-O Be6 9. Rc4 Bb6 10. De2 He8 11. Rxb6 axb6 12. Bc2 d5 13. Rd2 Dd7 14. He1 b5 15. a3 b4!

Með þessum leik tekst Jóhanni að skapa veikleika í peðastöðu hvíts.

16. Rb3 bxc3 17. bxc3 b6 18. Df3 dxe4 19. dxe4 De7 20. h3 Ra5 21. Rxa5 Hxa5 22. Hb1 Rd7 23. Hd1 Rf8 24. Hb4 Hd8 25. Hxd8 Dxd8 26. Dd3 Dxd3 27. Bxd3 Rd7 28. Kf1 Kf8 29. Ke2 Ke7 30. Bc2 Rc5

Biskupaparið má sín lítils gagnvart vel staðsettum liðsafla svarts. Slæm peðastaða er viðvarandi vandamál.

31. f3 g5 32. Ke2 f6 33. Ke2 Bd7 34. Bd3 Re6 35. Ke3 Rf4 36. Bf1 Bc8 37. Kd2 Ba6 38. c4 Bc8 39. Kc3 Re6 40. Hb1 Bd7 41. Ha1 Kd6 42. Bd3 Rd4 43. Hb1 Be6 44. Hb4 Ha8 45. Hb1 Kc5 46. Hb4 h5 47. Hb1 Kd6 48. Hb4 g4 49. hxg4 hxg4 50. fxg4?

Eftir þetta situr hvítur uppi með nýjan veikleika. Hann varð að reyna 51. f4.

50. … Bxg4 51. Kd2 Bd7 52. Ke3 Hg8 53. Kf2 Bc6 54. Be3 Hg4!

Og nú fellur e-peðið – og síðar öll peð hvíts!

55. c5+ bxc5 56. Hb8 Bxe4 57. Bf1 Bc6 58. Bh6 Re6 59. g3 Ha4 60. Hb3 Bd5 61. Hc3 Ha8 62. Bc1 Rd4 63. g4 Be6 64. g5 fxg5 65. Bg2 Hf8+ 66. Ke1 g4 67. a4 c4 68. a5 Bd5 69. Bf1 Ha8

– og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 27. apríl 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -