Á minningarmóti María Friðriksdóttir, ekkja Bergvins Oddssonar, lék fyrsta leikinn fyrir son sinn Lúðvík í skák hans við Jóhann Hjartarson. Með hvítt, frá vinstri: Einar Guðlaugsson, Lúðvík, greinarhöfundur, Birkir Karl Sigurðsson og Þröstur Þórhallsson. Á bak við þá stendur Arnar Sigurmundsson, aðalskipuleggjandi minningarmótsins. Við taflið sitja einnig f.h.: Jóhann, Páll Andrason, Hannes Hlífar Stefánsson og Oddgeir Ottesen. — Morgunblaðið/Óskar P. Friðriksson
Minningarmótið um Bergvin Oddsson, skipstjóra á Glófaxa VE, sem fram fór í Vestmannaeyjum um síðustu helgi, þótti heppnast svo vel að gamli framkvæmdastjóri Ísfélagsins í Eyjum, Ægir Páll Friðbertsson, stakk upp á því að At-skákmóti Íslands yrði fundinn staður á þessum slóðum. Það var fjölskylda Bergvins sem skipulagði mótið ásamt Taflfélagi Vestmannaeyja.

Alls hófu 44 skákmenn keppni og voru tefldar átta umferðir með tímamörkunum 15 5. Efstu menn mótsins urðu: 1.-2. Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson 6½ v. (af 8) 3.-5. Helgi Ólafsson, Þröstur Þórhallsson og Hjörvar Steinn Grétarsson 6 v.

Jóhann var hærri á mótsstigum og telst því sigurvegari mótsins. Arnar Sigurmundsson, formaður TV, vakti athygli á því að þrír efstu hefðu einnig verið í þrem efstu sætum í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands í Eyjum fyrir 25 árum.

Bestum árangri félagsmanna í TV náði Lúðvík Bergvinsson, sem fékk 4 vinninga, en bestum árangri kvenna náðu Tinna Kristín Finnbogadóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, einnig með 4 vinninga.

Mótið fór fram á 2. hæð nýstandsetts húsnæðis þar sem áður var vinnslusalur Fiskiðjunnar í Eyjum og hýsir nú Þekkingarsetur Vestmannaeyja. Á 1. hæð er Náttúrugripasafnið í Eyjum, þ.m.t. hið merka Fiskasafn. Inn af því má finna risastóra laug sem bíður komu mjaldranna 19. júní næstkomandi. Þetta eru glæsileg salarkynni og framkvæmd mótsins í góðum stíl. Við setningu mótsins afhenti Lúðvík Bergvinsson, fyrir hönd fjölskyldunnar, Taflfélagi Vestmannaeyja myndarlegan styrk til handa barna- og unglingastarfi.

Magnús Carlsen vann með yfirburðum á Fílabeinsströndinni

Heimsmeistarinn Magnús Carlsen hefur nú unnið öll þau mót sem hann hefur tekið þátt í á þessu ári og staðfesti sigur hans í borginni Abidjan á Fílabeinsströndinni, þar sem 10 skákmenn tefldu einfalda umferð í atskák og tvöfalda umferð hraðskák, yfirburði hans í öllum þrem keppnisgreinum skákarinnar. Hann hlaut 26½ vinning af 36 mögulegum, en þess má geta að atskákirnar reiknuðust tvöfalt á við hraðskákirnar. Í 2.-3. sæti urðu Nakamura og Vachier-Lagrave með 23 vinninga og í 4. sæti varð Wesley So með 19½ vinning.
Oft var heimsmeistarinn að nudda af mönnum hnífjafnar stöður en glæsileg undantekning var sigur hans yfir Frakkanum í atskákinni:

Magnús Carlsen – Maxime Vachier-Lagrave

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Be3 Rg4 7. Bg5 h6 8. Bh4 g5 9. Bg3 Bg7 10. Dd2 Rc6 11. Rb3 Be6 12. h4 gxh4 13. Bxh4

Vachier-Lagrave teflir Najdorfinn við hvert tækifæri og að þessu sinni vék Magnús ekki af alfaraleiðum og mætti vel undirbúinn.

13…. b5 14. f4 b4 15. Ra4 Dc7 16. 0-0-0 Hb8 17. Kb1 Ra5 18. Rxa5 Dxa5 19. b3 Dc7 20. Be2 h5 21. f5 Bd7 22. Bxg4 hxg4 23. Dg5!

Hótar máti og skeytir engu um veikleika sem myndast á hinum vængnum.

23…. Bf6 24. Dxg4 Bxa4 25. Bxf6 Hxh1 26. Hxh1 exf6 27. bxa4 Ke7 28. Df3 Hc8 29. Dd3 a5 30. Hd1 Hg8 31. De2 Hg3 32. Df2 Ha3 33. g4 Hxa4?

Tapleikurinn. Með 33…. Dc5! gat svartur haldið jafnvægi.

34. g5!

Peð eru líka sóknarmenn.

34…. fxg5 35. f6+ Ke8 36. De2 b3 37. axb3 Hb4 38. e5! dxe5 39. Hd5 Kf8 40. Dh5 Hh4 41. Dxg5 Hh7 42. Dd2!

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 18. maí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -