Air Iceland Connect hátíðin í Nuuk hófst strax á flugvellinum í höfuðborg Grænlands. Air Iceland Connect hefur staðið að skáklandnámi Hróksins frá upphafi, 2003.

Hrókurinn og Kalak standa fyrir Nuuk-skákmótinu 2019 í Pakkhúsi Hróksins laugardaginn 1. júní. Tilefnið er Air Iceland Connect-hátíð Hróksins, sem fram fer í Nuuk 5.-10. júní. Samhliða verður bókamarkaður, þar sem bækur úr fórum Þorsteins frá Hamri og Hrafns Jökulssonar verða til sölu, og rennur ágóði í Grænlandsstarf Hróksins. Tefldar verða átta umferðir með umhugsunartímanum 3/2.

Hrókurinn hefur síðan 2003 staðið fyrir landnámi skáklistarinnar á Grænlandi, og hafa fjölmargir íslenskir, og erlendir, skákáhugamenn á öllum aldri verið með í ferðum Hróksins. Á síðasta ári urðu þau merku tímamót að stærsta sveitarfélag Grænlands samþykkti að skák yrði tekin upp sem kennslugrein í grunnskólum sveitarfélagsins.

Mótið á laugardaginn er í senn fagnaðarfundur og fjáröflunarsamkoma. Ótrúlega margir kjörgripir íslenskrar prentsögu verða til sölu, en þátttaka í mótinu er ókeypis og öllum frjáls. Skráið ykkur sem fyrst hjá Róbert Lagerman, varaforseta Hróksins, í chesslion@hotmail.com. 

Birte Nielsen formaður Krabbameinsfélags Íslands veitir viðtöku 1000 slaufum frá Krabbameinsfélagi Íslands, til að selja í fjáröflunarskyni.

Hróksliðar munu ekki einasta efna til skákviðburða, heldur færa Rauða kross Grænlands gjafir, sem og Krabbameinsfélagi Grænlands, börnum í fyrsta bekk hjálma frá Kiwanis-hreyfingunni á Íslandi, og heimsækja athvörf, heimili og fangelsi. Yfirskrif hátíðarinnar 2019 eru kjörorð alþjóða skákhreyfingarinnar og Hróksins: Við erum ein fjölskylda.