Björn Þorfinnsson að tafli í Pororoz. Mynd: Heimasíða mótsins.

Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson (2381) er í 2.-6. sæti á alþjóðlega mótinu í Portoroz í Slóveníu. Í sjöundu umferð, sem fram fór í gær, vann hann finnska stórmeistarann Jouni Yrjola (2327). Björn hefur 5½ vinning.

Stefán Steingrímur Bergsson (2149) tapaði fyrir króatíska stórmeistaranum Robert Zelcic (2518) í hörkuskák. Stefán hefur 5 vinnninga.

Áttunda og næstsíðasta umferð mótsins fer fram í dag. Björn teflir við áðurnefndan Zelcic. Stefán mætir slóvenska alþjóðlega meistaranum Leon Mazi (2333) sem kominn er á viskualdurinn.

Upplýsingar um úrslit þeirra félaga má finna á Chess-Results.

89 skákmenn frá 33 löndum taka þátt í mótinu. Þar á meðal eru átta stórmeistarar.  Engar beinar útsendingar frá mótinu.

Paracin-mótið

Vignir Vatnar Stefánsson (2293) og Gauti Páll Jónsson (2080) töpuðu báðir í áttundu og næstsíðustu umferð Paracin-mótsins sem fram fór í gær. Vignir fyrir serbneska alþjóðlega meistaranum Milos Stankovic (2462). Vignir hefur 4½ vinning en Gauti hefur 2 vinninga.

Upplýsingar um árangur þeirra félaganna má finna á Chess-Results.

Arnar Milutin Heiðarsson (1777), sem teflir í b-flokki hefur 4 vinninga en hann vann í gær.

Lokaumferðin hófst í morgun og er Vignir í beinni.

166 skákmenn frá 32 löndum tefla í efsta flokki. Þar á meðal eru 15 stórmeistarar.

 

- Auglýsing -