Efstu þrír. Mynd: ESE

Það var mikið um dýrðir á skák- og afmælishátíð KR við Selvatn á Nesjavallaleið fyrir helgina sem haldin var í Listaskála þeirra Guðfinns og Erlu Axels í skrúðgarðinum þar við fjallavatnið fagurblátt.

Metþátttaka var í mótinu nærri 50 eitilharðir skákmenn á öllum aldri mættir til tafls. Þar af tveir stórmeistarar og nokkrar landsliðskonur í skák auk efnilegra ungmenna, sem krydduðu mótið með þátttöku sinni eins og sjá má á mótstöflunni hér að neðan.

Þetta var í 13. skipti sem slíkt sumar- og fjáröflunarmót er haldið á vegum Skákdeildar KR sem heldur uppi skákstarfsemi allt árið um kring. Fjölmargir stuðningsaðilar alls um 40 talsins styrktu mótshaldið með fjárframlögum auk keppendanna sjálfra með þátttöku sinni.

Guðfinnur, Erla og Kristján. Mynd: ESE

Einar Ess, mótsstjóri, bauð keppendur og gesti velkomna og gaf síðan Kristjáni Stefánssyni, formanni, manninum á bakvið tjöldin, orðið til að flytja hástefnt hátíðarávarp og minnast 20 ára afmæli skákdeildarnnar á þessu ári. Hann ræddi einnig um gildi skáklistarinnar fyrir unga sem aldna og þakkaði styrktaraðilum og gestgjöfum mótsins. Síðan veitti hann viðtöku sértökum afmælisskildi með heillaóskum frá Skáksambandinu og Riddaranum í sameiningu.

Veisluborðið svignaði. Mynd: ESE

Dýrindis kvöldverður/Galadinner var reiddur fram undir beru lofti í hálfleik af meistarakokkum frá Eldhúsi Sælkerans. Eftir fjölbreytt sjávarréttahlaðborð kom svo að aðalréttinum, glóðarsteiktri lambasteik með öllu, sem virtist koma sumum mótgestuum á óvart, sem þegar höfðu snætt fylli sína af forréttunum, svo margir borðuðu yfir sig, sem kann að hafa bitnað á framstöðu þeirra við skákborðið í næstu umferðum.

Villi Guðjóns er ekki bara góður skákmaður. Mynd: ESE

Tónlistarsnillingarnir Vilhjálmur Guðjónsson og Ingólfur Magnússon léku á létta strengi til hátíðarbrigða meðan á borðhaldi stóð og blésu í lúðra í upphafi móts.

Taflmennskan í mótinu var mjög lífleg og góður baráttu- og keppnisandi sveif yfir vötnunum. Helgi Áss Grétarsson leiddi mótið lengst af svo baráttan um önnur efstu sæti varð þeim mun harðari. Verðlaun voru veitt fyrir 5 efstu sætin. Það fór lika svo að Helgi Áss sigraði á mótinu með 9 vinningum af 11 mögulegum. Bragi Halldórsson varð annar með 8.5v. og Arnar Þorsteinsson, þriðji með 8v., Helgí Ólafsson og Róbert Lagarman í 4.-5. sæti með 7.5. Gunnar Kr. Gunnarsson (86 ára) kom svo næstur 7v. og hlaut öldungaverðlaunin. Jafn honum að vinningum urðu þær Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir, sú fyrri hlaut kvennaverðlaunin á stigum. Í kjölfar þeirra komu svo hinir valinkunnu kappar, Jón G. Friðjónsson og Jón Torfason með 6.5v. en þeir hafa ekki verið tíðir keppendur í mótum um árabil. Jafn þeim að vinningum kom svo gestgjafinn sjálfur Guðfinnur R. Kjartansson, sem fengið hafði frí frá skákstjórastörfum, sem Páll Sigurðsson, alþl. skákdómari, leysti af hendi með prýði. Ungmennaverðlaun hlaut Benedikt Þórisson og elsti keppandinn Magnús V. Pétursson, á 87. aldursári, aukaverðlaun sem elsti þátttakandinn. Nánari úrslit í 13. Sumarmótinu við Selvatn má sjá hér: http://chess-results.com/tnr455432.aspx?lan=1&art=4

Myndskreyting: ESE

Fleiri viðburðir er á döfunni með haustinu á vegum Sd. KR í tilefni af 20 ára afmæli klúbbsins, sem nánar verður greint frá þegar nær þeim dregur.

ESE

- Auglýsing -