Fjórða umferð á EM ungmenna fór fram í dag. Fyrir hana voru augu flestra á skák Vignis Vatnars Stefánssonar sem hefur farið vel af stað með 3 vinninga úr fyrstu 3 skákunum.

Fyrstur að klára að þessu sinni var þó Gunnar Erik. Var gríðarlega ánægjulegt að sjá hvað Gunnar lærði vel af tapinu í gær og vann sýna skák með nánast sama trikki og hann hafði tapað í gær!

Gegn stigaháum Spánverja í gær var Gunnar að leika hér 14…bxc5? en hefði getað fengið teflanlega stöðu með 14…h6 eða 14…Dc7. Eftir gerðan leik á hvítur hinsvegar 15.Rg5 sem er taktískt þema sem gott er að kunna. Lærdómurinn af tapinu var ekki lengi að skila sér!

Gunnar Erik lék að sjálfsögðu og af öryggi, 10.Rg5! og hvítur stendur til vinnings.

Skákin í heild sinni:

Guðrún Fanney hafði unnið tvær skákir í röð en varð að játa sig sigraða. Hún tefldi byrjunina eins og henni var sýnt en lenti á leikjaröð sem hafði ekki verið skoðuð. Hún fann fína reddingu og vélaði peð af andstæðingnum.

14.Dxb7? var of mikil græðgi og riddaraskákin á d3 kláraði dæmið. 14.Db5+ hefði verið betra og hvítur stendur betur, peði yfir. Engu að síður margt jákvætt hjá Guðrúnu og hún hefur 2 vinninga eftir skákirnar fjórar.

Birkir Ísak var á sýningarborði og hefur unnið vel fyrir því enda teflt feykivel á mótinu. Aftur var Najdorf afbrigðið á boðstólnum og aftur lék hvítur 6.h3 og Birkir Ísak endurtók að sjálfsögðu afbrigðið sem teflt var í 2. umferð.

Fannst mér vel takast til og var Birkir með fína stöðu

E.t.v. hefði mátt gera betur í þessari stöðu. Birkir lék 18…Hh7?! til að valda f7 peðið ef hvítur skyldi slá tvisvar á e5. Hinsvegar er það peð eitrað og framhald á borð við 18…Kb8!? hefði verið betra þar sem svartur á Hf8 og Hf2 ef hvítur drepur tvisvar og drepur á f7. Í framhaldinu varð hrókurinn á h7 út úr spilinu.

Ég var búinn að lofa Hilmi Frey sterkum til baka eftir erfiða byrjun. Hann er að bakka upp traustið hjá “capitan”! Hilmir hélt upp á sinn 18 ára afmælisdag í gær og er ósigraður á 19. aldursári! Andstæðingur hans í dag var heldur bjartsýnn þegar hann hélt að hann kæmist bara “frítt” í Maroczy uppstillingu. Hilmir er hinsvegar sérfræðingur í svona “Sullufótarfræðum” eins og sumir kalla flækjurnar. Hilmir las andstæðinginn rétt í byrjuninni og átti í litlum vandræðum gegn kóngi hvíts sem var fastur á miðborðinu.

Jósef Omarsson (sonur Omars Salama og Lenku Ptacnikovu) hefur komið sterkur inn í U8 ára flokkinn og var með 2 af 3 fyrir umferð dagsins. Hann tefldi fyrri part skákar dagsins eins og skákmeistari með vel yfir 2000 elóstig en fataðist því miður flugið þar sem vinningsleiðirnar voru nokkuð flóknar fyrir svona ungan skákmann. Margt mjög gott hjá Jósef og mikið sem hann lærir vonandi af skákunum hér.

Jósef fékk þessa stöðu eftir 15 leiki

Má í raun segja að hann hafi teflt þetta eins og reyndur London-skákmaður og algjörlega til fyrirmyndar hvernig hann hefur farið eftir forskriftum sem fyrir hann voru lagðar! Tölvuapparötin, hin svokölluðu “Ógeð” setja matið yfir +8 fyrir hvítan hér! Því miður fataðist Jósef flugið og var mjög sár eftir skákina en lærir vonandi vel af henni!

Batel var eins og Jósef með tvo vinninga í sínum flokki en mætti stigahárri og sterkri úkraínskri stelpu í dag. Upp kom Benko gambítur og Batel tefldi byrjunina nokkuð frumlega. Þrátt fyrir að byrjanir séu ekki hennar sterkasta hlið kann stelpan vel að tefla og er oft sterk í taktíkinni og með mikið keppnisskap og seiglu sem skilar henni langt.

Hún fékk í raun ótrúlega fína stöðu í miðtaflinu með “full-control” eins og menn kalla það oft.

Hér er hvítur með riddrara á c4 sem er algjör niðurnegling fyrir svörtu stöðuna í slíkum stöðum og hvítur ætti að geta haldið stjórn á stöðunni og undirbúið e5 framrásina. Í framhaldinu kom hinsvegar í ljós styrkleika og reynslumunur og sú úkraínska sigldi punktinum heim.

Komum við þá loks að U16 flokknum þar sem við eigum hina mjög svo frambærilegu keppendur Stephan Briem og Vigni Vatnar Stefánsson.

Stephan fékk aftur feykisterkan andstæðing með hvítu mönnunum. Auðvelt væri að svekkja sig á epískum séns á tröllgrís í 2. umferðinni en það þýðir ekkert að reyna að eltast við tapaða vinninga. Stephan vann sína skák í 3. umferð og í dag vann hann feykilegan baráttusigur á stigaháum andstæðingi. Allar líkur eru á því að þessi drengur sé yngri bróðir hins efnilega stórmeistara Rasmus Svane….það hjálpaði honum hinsvegar ekkert í dag! Lokatrikkið er stórskemmtilegt!

Vignir Vatnar eða MegaVatt-vélin eins og sumir vilja kalla hann stýrði svörtu mönnunum með fullt hús gegn hollenska skákmanninum Eelke De Boer. Vignir átti við virkilega valkvíða að stríða þegar kom að byrjunarvali í þessari skák. Gekk það svo langt að hann setti upp könnun á Facebook síðunni “Íslenskir Skákmenn” þó það hafi verið meira grín en alvara. Vignir var vel undirbúinn og með fínar hugmyndir bæði í Sveshnikov og Skandinavanum en var engu að síður ekki viss hvað hann ætti að tefla. Hann eyddi 3 mínútum í byrjun en ákvað á endanum að beita Sveshnikov. Vignir var aðeins svekktur að hafa þurft að “eyða” Sveshnikov í eitthvað “bot” eins og strákarnir kalla það á öðru skákmóti. Ef sú skák hefði ekki verið í gagnagrunnum hefði Vignir verið klár á núll einni í Svessann en var hikandi út af þeirri skák.

Byrjunin gekk alveg mjög þolanlega og Vignir var í raun kominn með aðeins betra í miðtaflinu

Þá kom slakur leikur 24..Da4? þar sem Vigni yfirsást framhald andstæðingsins. Í kjölfarið átti hvítur mjög vænlega leið.

Hér drap hvítur á e5, 27.Dxe5? en 27.f4! hefði gefið honum nánast vinningsstöðu.

Vignir komst svo út í mislinga eftir…

30…Db4! sem þvingaði uppskipti. Hvítur gat í kjölfarið skipt upp í steindautt jafntefli en þess í stað gaf Hollendingurinn Vigni stórhættuleg færi. Vignir þjarmaðu jafnt og þétt að honum í mislingunum.

Hér varð Hollendingurinn að finna eina leikinn 44.Kf4! sem tapar ekki “on the spot”!! Hvítur var engu að síður í vandræðum en Hollendurinn fann alla réttu leikina og hélt jafnteflinu. Engu að síður fín úrslit, alltaf erfitt að stýra svörtu mönnunum gegn sterkum skákmönnum og Vignir er enn í harðri toppbaráttu eftir þetta jafntefli.

Arnar Milutin Heiðarsson er með stigalægri keppendum í U16 flokknum en hans baráttuþrek er “second to none”! Hann náði mjög fínu jafntefli í dag og má virkilega vel við una eftir fjórar umferðir!

Benedikt Briem náði sér ekki á strik í dag en hann mun koma sterkur inn í seinni part mótsins enda býr mikið í drengnum!

Tómas Möller var einbeittur í dag og komst á blað. Ég þarf að fá það staðfest en ég veit ekki betur en að andstæðingur hans í dag, Anton Bologan sé sonur súper stórmeistarans Vicors Bologan frá Moldavíu! Í forgrunni er Adam Omarsson að fylgjast með félaga sínum. Adam vann einnig sína skák!

U12 flokkurinn skilaði því þremur vinningum af jafnmörgum mögulegum í hús, glæsilega að verki staðið þar!

Loks náði Benedikt Þórisson góðu jafntefli en hann er að koma sterkur inn eftir erfiða byrjun.

Alls komu 6.5 vinningur í hús og voru úrslit á þessa leið:

Almennt séð nokkuð góður dagur hjá íslensku keppendunum. Í annað skiptið var skellt í léttan fótbolta eftir umferð og var skiptingin nokkurn veginn eldri gegn yngri. Skemmst er frá því að segja að leikreynsla þeirra eldri vóg þyngra í þetta skiptið þó mjótt hefði verið á mununum!

Í fimmtu umferðinni fá U16 strákarnir báðir FIDE meistara sem andstæðing og verður mikilvægt fyrir Vigni að láta hvítu mennina telja í þessari umferð. Athyglisvert að Íslendingar mæta tveimur Ísraelum og tveimur Rúmenum.

- Auglýsing -