Hjörvar vann Stefán Steingrím í fyrstu umferð Haustmótsins. Mynd: Heimasíða TR.

Sunnudaginn 8. september hófst Haustmót TR 2019. Mótið er vel skipað í ár, en nú eru þrír lokaðir flokkar og einn opinn. Í A-flokki eru meðal annars tveir stórmeistarar, einn alþjóðlegur meistari og einn Fide meistari meðal þátttakenda. Nokkuð var um frestanir í fyrstu umferð vegna þátttöku Hörðuvallaskóla í Norðurlandamóti grunnskólasveita. Þannig voru aðeins tefldar tvær skákir í A-flokki í dag, Hjörvar Steinn Grétarsson (2563) lagði Stefán Bergsson (2192) í óvenjulegu afbrigði Sykileyjavarnar og Alexander Oliver Mai (2005) vann Baldur Kristinsson (2249). Eldskírn Alexanders í A-flokki byrjar vel, en hann vann sér inn sæti í flokknum með sigri í B-flokki í fyrra. Skák Guðmundar Kjartanssonar gegn Vigni Vatnari Stefánssyni og skák Daða Ómarssonar gegn Braga Þorfinssyni verða tefldar síðar. Úrslit

Í B-flokki unnust þrjár skákir af fjórum á svart, en Aron Þór Mai (2063) vann Lenku Ptacnikovu (2100) með hvítu. Gauti Páll Jónsson (2035) vann Mikael Jóhann Karlsson (2175), Guðni Stefán Pétursson (2039) vann Harald Haraldsson (2034) og stigahæsti maður flokksins, Símon Þórhallsson, (2191) vann Sævar Bjarnason (2096). Símon er nú fluttur frá Akureyri til Reykjavíkur í nám og mun eflaust næla sér í fjölmörg Elo-stig, ættuð úr Gullbringu-og Hnappadalssýslu, í leiðinni. B-flokkurinn er mjög þéttur þegar litið er á skákstig og allar skákirnar geta endað á hvaða hátt sem er. Búast má því við mjög spennandi báráttu framundan. Úrslit

Í C-flokki eru ungir keppendur í bland við eldri og reynslumeiri. Pétur Pálmi Harðarson (1946), sem tekið hefur miklum framförum undanfarið, vann Jóhann Ragnarsson (1943). Franski skákmaðurinn Aasef Alashtar (1972), sem stóð sig mjög vel með TR í Hraðskákkeppni Taflfélaga, vann Helga Pétur Gunnarsson (1720) og skák Gunnars Eriks Guðmundssonar (1710) og Jóhanns Arnars Finnssonar (1773) lauk með jafntefli. Skák Arnars Heiðarssonar og Benedikts Briem verður frestað. Úrslit

25 manns taka þátt í opna flokknum að þessu sinni. Af óvæntum úrslitum má nefna að Ingvar Wu Skarphéðinsson (1322) vann Benedikt Þórisson (1573) og Josef Omarsson (1036) vann Hjálmar Sigurvaldason (1459). Báðir eru þeir ungir TR-ingar með framtíðina fyrir sér. Svo má ekki gleyma að Valsarinn Björgvin Kristbergsson (1030) lagði Bendikt Stefánsson (1442) af velli. Úrslit

Næsta umferð Haustmótsins verður næstkomandi miðvikudagskvöld, klukkan 19:30. Þá mætast meðal annars Vignir Vatnar og Hjörvar Steinn. Þeir sem áhuga hafa á beinum útsendinum eru hvattir til að mæta og fylgjast með í rauntíma í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og kaupa jafnvel kaffi og góðgæti í Birnukaffi í leiðinni.

Af heimasíðu TR

- Auglýsing -