Sex nemendur í 6. og 7. bekk Rimaskóla fóru í frábært skákferðalag til Færeyja í boði skólans og færeyska skáksambandsins. Rimaskóli fékk úthlutað styrk frá Vestnorræna höfuðborgarsjóðnum sem ætlaður var nemendum skólans til að heimsækja jafnaldra sína í Færeyjum og koma á skáksamstarfi. Það var ekki að sökum að spyrja að hópurinn hlaut höfðinglegar viðtökur hjá frændum vorum Færeyingum sem undir forystu Fjnnbjörns Vang forseta færeyska skáksambandsinsn skipulagði fjölbreytta dagskrá í þrjá daga, 20. – 23. sept. Fararstjórar krakkanna voru þeir Helgi Árnason fv. skólastjóri Rimaskóla og Björn Ívar Karlsson skákkennari skólans. Færeyjar skörtuðu sínu fegursta við komu Rimaskólahópsins á föstudegi og ferðaðist hópurinn um á bílaleigubílum til Þórshafnar og Klaksvíkur með viðkomu í ótal byggðalögum á leiðinni.

Rimaskólakrakkar tóku þátt í tveimur skákmótum, annars vegar einstaklingsmóti og hins vegar nokkurs konar landskeppni á milli færeyskra skákkrakka og Rimaskólasveitar. Sara Sólveig Lis í 7. bekk Rimaskóla sigraði á einstaklingsmótinu og lið Rimaskóla bar sigur í landskeppninni 20 – 14. Bæði mótin voru jöfn og spennandi allt til síðustu skákar. Tíminn í Færeyjum nýttist vel til skákæfinga sem Björn Ívar hélt utan um. Hann lýsti ánægju sinni með áhuga krakkanna og þeim framförum sem hann merkti á meðal krakkanna á þessum stutta tíma.

Heimsókn Rimaskóla vakti áhuga stjórnarmanna í Skáksambandi Færeyja. Stjórnin boðaði til fundar í tilefni íslensku heimsóknarinnar þar sem Björn Ívar flutti afar áhugavert erindi um skákstarfið í Rimaskóla og um þá kennslu og aðferðir sem nýst hafa honum vel í skákkennslu barna og unglinga sl. áratug. Sköpuðust miklar umræður í lok erindisins sem þeir Björn Ívar og Helgi skólastjóri tóku þátt í.

Eins og áður sagði fékk íslenski hópurinn afar góðar móttökur í Færeyjum. Það var mikið teflt og margt spennandi að sjá og upplifa hjá krökkunum í þeirra fyrstu heimsókn til Færeyja. Rimaskólakrakkarnir eru á aldrinum 11 – 12 ára gömul og skipa skáksveit skólans á barnaskólastigi. Þetta eru þau Sara Sólveig, Sóley Kría, Aðalbjörn Þór, Aron Örn, Arnar Gauti og Daníel Tal.