Oft verður mér af vana gengið hér

sem von á því ég eigi

að gömul kvæði hlaupi móti mér

á miðjum Laugavegi.

Með vini mínum eitt sinn átti ég þar

í æsku minni heima,

og marga glaða minning þaðan bar,

sem mér er ljúft að geyma.

Þannig orti Tómas Guðmundsson fyrir hartnær 80 árum síðan. Miðbær Reykjavíkur, vagga íslenskrar menningar, hvar er betra að setjast niður að tafli í góðra vina hópi? Því er ekki gott að svara, en svo vill til að það verður einmitt teflt í miðbænum sunnudagskvöldið 29. september klukkan 19, í Iðnó, við Tjörnina. Þar situr Tómas sjálfur á skáldabekknum og fylgist með töfrum taflborðsins.

Tefldar eru níu hraðskákir með umhugsunartímanum 3+2, þrjár mínútur á skákina að viðbættum tveimur sekúndum á hvern leik. Skráningu var lokið en mótsshaldarar geta nú tilkynnt að opið er fyrir skráningu aftur fram að móti þar sem mótið mun fara fram í hátíðarsal Iðnó, stærsta salnum, með mun meira rými en salurinn á efri hæð þar sem mótið átti upprunalega að fara fram (hámarksfjöldi fer úr 60 í 80+). 1000 króna þátttökugjald greiðist með reiðufé áður en taflmennskan hefst. Aðalstyrktaraðilar mótsins eru Dominos Pizza ásamt Taflfélagi Reykjavíkur og þökkum við þeim kærlega fyrir. Mótið fellur í flokkinn ,,Miðbæjarskák” en hingað til hafa mótin farið fram á kaffihúsinu Stofunni að Vesturgötu 3. Mótshaldarar færa nú út kvíarnar og í framtíðinni verða skoðaðir enn fleiri möguleikar á staðsetningu, en stefnt er að því að halda mótin mánaðarlega.

Yfirumsjón með mótinu hefur Elvar Örn Hjaltason ásamt Héðni Briem, Arnari Inga Njarðarsyni og Gauta Pál Jónssyni.

Skráning: https://forms.gle/jHiB9TKi641FBu5b8

Þegar skráðir keppendur: https://chess-results.com/tnr468986.aspx?lan=1

 

- Auglýsing -