Guðmundur að tafli í Hörpu. Mynd: Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Nú eru 16 keppendur eftir á heimsbikarmóti FIDE sem stendur yfir í Khanty Mansyisk í Síberíu og nokkrir góðir hafa fallið úr leik, t.d. Giri, Nakamura og Wei Yi. Í 4. umferð sem hófst í gær átt að tefla saman átt að tefla saman Aronjan og Liem Quang, Liren Ding og Alekseenko, Grischuk og Dominguez, So og Vitiugov, Nepomniachctchi og Yu Yangyi, Duda og Jeffrey Xiong, Radjabov og Mamedyarov og síðan Vachier-Lagrave og Svidler.

Hægt er að fylgjast með keppninni á nokkrum vefsvæðum t.d. á Chess24.com en meðal skákskýrenda þar í vikunni var Magnus Carlsen. Á miðvikudaginn voru þau einvígi þriðju umferðar til lykta leidd sem ekki kláruðust með kappskákunum.

Anish Giri – Yeffery Xiong

Í útsendingunni gerði Magnús óspart grín að Giri og kvaðst tilbúinn að taka veðmáli um að í þessari stöðu myndi Giri skorta kjark og leika 22. Kb2 með það fyrir augum að semja jafntefli eins og í öllum fimm skákum einvígis hans við hinn unga Bandaríkjamann því þrátefli er þá í boði eftir 22…. Rc4+ 23. Kb1 Ra3+ 24. Kb2 o.s.frv. Greinarhöfundur var nú ekki mjög trúaður á þetta myndi gerast en viti menn. Giri lék…

22. Kb2?

Mun djarfara og betra var 22. g4! og hvíta staðan er mun betri.

22…. Hc4!

En svartur vill ekki jafntefli!

23. Dd3 Hfc8 24. Hc1 b5 25. f5?? Hxc3! 26. Rxc3 Hxc3!

– og nú sáu menn fram á að 27. Dxc3 er svarað með 27…. Rc4+ og drottningin fellur. Eftir 27. De1 Rc4+ 28. Ka1 Re5 var svarta staðan auðunnin og hvítur gafst upp eftir 36 leiki.

Guðmundur og Hjörvar efstir á Haustmóti TR

Guðmundur Kjartansson og Hjörvar Steinn Grétarsson eru efstir og jafnir á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur þegar tvær umferðir eru eftir í keppni A-riðils. Þeir gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign fimmtu umferðar og eru báðir með 4 ½ vinning. Teflt er í fjórum riðlum og í B-riðli er Aron Thor Mai efstur, í C-riðli er Frakkinn Asef Alashtar með örugga forystu og í opna flokknum hefur Ingvar Wu Skarphéðinsson unnið allar sínar skákir en tekið eina ½ vinnings yfirsetu.

Ein athyglisverðasta skák mótsins var viðureign Daða Ómarsson og Guðmundar Kjartanssonar í 4. umferð. Þeir tóku til meðferðar eitt elsta og þekktasta afbrigði skákfræðanna og Guðmundur lét sig ekki muna um að tefla eins og Emanuel Lasker gerði fyrir 127 árum:

Daði Ómarsson –

Guðmundur Kjartansson

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Rf6 4. Rg5 d5 5. exd5 Ra5 6. Bb5+ c6 7. dxc6 bxc6 8. Bd3

Einn fjölmargra leikja í stöðunni. Þekkt leið er 8. Be2 h6 9. Rh3 en þannig tefldu Fischer og síðar Short nokkrum sinnum.

8…. Rg4 9. Re4 f5 10. Be2 h5 11. h3 fxe4 12. hxg4 Bc5 13. b4!?

Ekki slæmur leikur en 13. Rc3 kom einnig til greina.

13…. Dd4 14. bxc5 0-0 15. Hf1?

Af hverju Daði hrókeraði ekki stutt er eiginlega stóra spurningin. Kóngurinn stendur ekki vel á e1 en eftir 15. 0-0 Dxa1 16. Rc3 og nú 16…. e3!? en hvítur á samt ágætis möguleika.

15…. Dxa1 16. Rc3 Bxg4 17. Bxg4 hxg4 18. Hh1 Hab8

Kemur hróknum í spilið. „Vélarnar“ eru fljótar að finna 18…. g3! 19. fxe3 e3 með vinningsstöðu.

19. Rxe4 Hb1 20. Ke2 Dxa2 21. Hh4 Hf4 22. d3 Rb3!

Óvenjuleg leppun. Hvítur getur sig hvergi hrært og gafst því upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 21. september 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -