Efnilegur Alexander Oliver Mai bætti sig verulega á Haustmóti TR. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Guðmundur Kjartansson vann nauman sigur á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk um síðustu helgi. Hann átti í harðri keppni við Hjörvar Stein Grétarsson, úrslitin réðust í 6. umferð en þeir voru þá jafnir að vinningum. Hjörvar lenti í vandræðum gegn hinum 16 ára gamla Alexander Oliver Mai og var um tíma með tapað tafl en náði jafntefli. Guðmundur atti kappi við Braga Þorfinnsson og komst lítt aleiðis þrátt fyrir góða byrjun. Eftir 38 leik kom þessi staða upp:

Guðmundur – Bragi

Að svartur sé að fara að tapa þessari stöðu í tveim leikjum er ótrúlegt. Bragi lék…

38…. Kd6??

Eftir 38…. g4 ásamt f6-f5 getur hvítur aldrei brotist í gegn.

39. h4! Ke5 40. g4!

– og svartur gafst upp. Framhaldið gæti orðið 40…. hxg4 41. h5 Ke6 42. Kf2 o.s.frv.

Ekki er það alveg nýtt að menn séu lokaðir fyrir þessu gegnumbroti peðanna. Margeir Pétursson var sleginn skákblindu í svipaðri stöðu á Íslandsmótinu 1990 þegar hann tefldi við Hannes Hlífar Stefánsson. Hann benti síðar á þá athyglisverðu staðreynd að vinningurinn hefði samt kostað Hannes sæti í ólympíuliði Íslands það ár, hversu fjarstæðukennt sem það kann að hljóma. Annað svipað dæmi má finna í skák Hans Ree við Tékkann Lubomir Ftacnik í Kænugarði árið 1978.

Lokastaðan í A-riðli: 1. Guðmundur Kjartansson 6½ v. (af 7) 2. Hjörvar Steinn Grétarsson 6 v. 3. Vignir Vatnar Stefánsson 4 v. 4. Bragi Þorfinnsson 3½ v. 5. Alexander Oliver Mai 3 v. 6.-7. Stefán Bergsson og Baldur Kristinsson 2 v. 8. Daði Ómarsson 1 v.

Í B-riðli sigraði Aron Thor Mai með 6 vinninga af sjö og vann sæti sæti í A-riðli á næsta ári. Þeir bræður Alexander og Aron hækkuðu um samtals 170 elo-stig á haustmótinu.

Í C-riðli sigraði Arnar Milutin Heiðarsson með 6 vinninga af sjö og hækkaði um 95 elo-stig. Mesta stigahækkun haustmótsins kom þó í Opna flokknum þar sem Þorsteinn Magnússon sigraði. Ingvar Wu Skarphéðinsson sem varð í 2. sæti hækkaði um 122 elo-stig fyrir frammistöðu sína.

Greinarhöfundur renndi yfir nokkrar skákir mótsins og gæði taflmennskunnar í A-riðli voru allmikil. Í fyrstu umferð reyndi sigurvegarinn nýja hugmynd sem þykir fara langt með að hnekkja leikbragði Blumenfelds:

Haustmót TR; 1. umferð:

Guðmundur Kjartansson – Vignir Vatnar Stefánsson

Blumenfeld gambítur

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 c5 4. d5 b5 5. e4!?

Þetta er nýjasti snúningurinn.

5…. Rxe4 6. Bd3 Rf6 7. 0-0 Be7 8. Rc3 b4?

Vanhugsaður leikur. Það er meira í anda byrjunar svarts að leika 8…. a6.Hrókurinn gæti fengið reit á a7.

9. Re4 Bb7 10. He1 Db6 11. Re5

Annar góður leikur var 11. Bg5. Hvítur hefur rífandi bætur fyrir peðið.

11…. Rxe4 12. Bxe4 Bf6 13. Dh5!

Það er ótrúlegt en „vélarnar“ telja stöðu svarts þegar tapaða.

13…. g6 14. Df3

14.. . .Bxe5

Svartur á engan betri kost.

15. dxe6 Bxe4 16. Dxf7+

Enn sterkara var 16. exf7+ Kd8 17. Hxe4 Df6 18. Bf4! o.s.frv.

16…. Kd8 17. Hxe4 Dxe6 18. Dxe6 Bxh2+ 19. Kxh2 dxe6 20. Be3 He8 21. Bxc5 Rc6 22. Hf4!

Eftir þetta ryðst hrókurinn inn. Svartur er varnarlaus.

22…. Hc8 23. Hd1 Kc7 24. Hf7+ Kb8 25. Hxh7 Hh8 26. Hdd7 Hxh7 27. Hxh7 Hd8 28. Be3 Kc8 29. Hg7 Re5 30. b3 Rg4+ 31. g3 Rxe3 32. fxe3 Hd3 33. Kf3

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 28. september 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -