Alþjóðlegt yfirbragð Pólverjinn Gajewski (t.h.) teflir við Sune Berg Hansen. Fjær má sjá Dziuba og Jóhann Hjartarson. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir naumt tap, 3½: 4½, fyrir SSON heldur Víkingaklúbburinn tveggja vinninga forystu eftir fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í Rimaskóla um síðustu helgi. Víkingaklúbburinn hefur hlotið 32 vinninga af 40 mögulegum en SSON, Skákfélag Selfoss og nágrennis, er með 30 vinninga og Huginn í 3. sæti með 25½ vinning. Fátt bendir því til annars en að barátta um efsta sætið verði milli tveggja efstu sveitanna, en 10 lið tefla í efstu deild.

Í 2. deild gerir skákdeild KR sig líklega til sigurs og hefur tveggja vinninga forskot, í 3. deild er b-sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjaness með örugga forystu og í 4. deild er b-sveit SSON með örugga forystu.

Margir náðu góðum úrslitum um helgina. Rússarnir fjórir sem SSON „flutti inn“ voru nokkurn veginn á pari nema þá helst Antipov sem gerði jafntefli í öllum skákum sínum, en Bragi Þorfinnsson og Dagur Arngrímsson fengu báðir 4½ vinning af fimm mögulegum.

Pólverjarnir fjórir hjá efsta liðinu, Víkingaklúbbnum, stóðu sig allir vel en enginn þeirra sló þó við Jóhanni Hjartarsyni sem vann allar fimm skákir sínar í góðum stíl, árangur sem reiknast upp á 3.123 Elo-stig. Hann var sá eini í liði Víkingaklúbbsins sem vann skák í viðureigninni við SSON:

Jóhann Hjartarson – Semion Lomasov

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. 0-0 Rxe4 6. d4 b5 7. Bb3 d5 8. dxe5 Be6 9. Be3

Það eru nokkrar leiðir í boði í þessari stöðu, t.d. 9. De2, 9. Rbd2 eða 9. c3 sem Jóhann valdi að leika í hinni frægu einvígisskák við Kortsnoj í Saint John árið 1988.

9. … Be7 10. c3 Dd7 11. Rbd2 Rxd2 12. Dxd2 Ra5 13. Hfe1 c5 14. h3 h6 15. Bc2 Rc4 16. Dc1 a5 17. b3 Rb6?!

Svarta staðan er vel teflanleg eftir þennan leik en samt var 17. … Rxe3 18. Dxe3 b4! betra og svartur stendur síst lakar.

18. a4 bxa4 19. bxa4 Rc4 20. Hb1 Dc7 21. Bf4 Hb8 22. Bd3 Hxb1 23. Dxb1 0-0 24. Dc1 Dd7?

Fyrstu stóru mistök svarts. Mun betra var 24. … Dc8 því að þá er framrás e5-peðsins ekki jafn hættuleg í samanburði við það sem nú gerist.

25. Bxh6! Bxh3!

Biskupinn á h6 mátti svartur alls ekki taka en það er óvenjulegt að sjá fórninni á h6 svarað með annarri á h3.

26. Bg5! Bxg2?

Hann varð að leika 26. … Bg4 þó að hvítur eigi góða stöðu eftir 27. Bxe7 Dxe7 28. Bxc4 með hugmyndinni 28. … dxc4 29. Rg5! o.s.frv.

27. e6!

Þessi öflugi leikur gerir út um taflið.

27. … fxe6 28. Kxg2 e5 29. Rh2 Rb2 30. Bb5 Bxg5 31. Dxg5 Df7 32. Dxe5 Dxf2+ 33. Kh1 Df5 34. De2 Df2 35. Bc6 Dxe2 36. Hxe2 Rd1 37. Bxd5+ Kh7 38. c4 Rc3 39. He5 Hf4 40. Kg2 Rxa4 41. Kg3 Hf6 42. Rg4 Hxe2 d6 43. Kf4 Rb6 44. Be4+ Kg8 45. Hxc5 a4 46. Re5 a3 47. Ha5 Hd4 48. Ha6 g5+ 49. Kf5 Rc8 50. Bd5+ Kg7 51. Hg6+

– og svartur gafst upp.

Að þessu sinni fylgdist greinarhöfundur með baráttunni af hliðarlínunni. Því verður ekki á móti mælt að keppnin hefur vaxið og dafnað. Nú eru breytingar fyrirhugaðar á fyrirkomulagi Íslandsmótsins með stofnun úrvalsdeildar þar sem sex skáksveitir munu tefla tvöfalda umferð á þrem helgum. Gangi þær fyrirætlanir eftir ætti að gefast tækifæri til að semja nýja reglugerð um keppnina, setja staðla er varða aðstæður, útsendingar frá keppnisstað, tímamörk og annað sem getur bætt upplifun þátttakenda.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 12. október 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -