Íslenska landsliðið virðist vera að tefla sig í gang á Evrópumóti landsliða í Batumi í Georgíu. Eftir skyldusigur á Skotum var töluvert sterkara lið Litháa lagt að velli í sjöundu umferðinni. Litháarnir eru með ungt lið og tvo mjög sterka menn á efstu borðunum en Ísland hafði nokkra stigayfirburði á síðustu tveimur borðunum.

Guðmundur Kjartansson var fyrstu til að klára af Íslendingunum. Hann hafði svart gegn 2500 stiga skákmanni og beitti aftur Botvinnik-afbrigðinu, sama byrjun og hann vann góðan sigur á Ftacnik gegn. Svo virðist sem Litháinn hafi ekki kynnt sér þá skák því hann hafði lítið sem ekkert í pokahorninu og drap með biskup á f6 sem er mjög sjaldgæfur leikur. Gummi fékk því strax fína stöðu og í raun var magnað að íslensku stöðurnar eftir rúmt klukkutíma tafl voru allar annaðhvort mun betri eða í góðu lagi. Það stefndi því snemma í góðan dag. Guðmundur hélt sjó mjög vel og bætti stöðuna hægt og bítandi og vann peð og fann svo flottar leiðir til að sigla því heim og vann sína skák.

Í kjölfarið á úrslitum Gumma samdi Bragi jafntefli í sinni skák en hann hafði verið að pressa á Brazdzionis sem var búinn að eiga lélegt mót. Bragi hefur e.t.v. búist við að hann myndi brotna með endatafl peði undir og 1 vinning af 6 mögulegum en sá litháíski barðist með kjafti og klóm og gerði úrvinnslu Braga erfiða. Líklegast var þetta spurning um að taka aðeins meiri tíma í endataflinu, “Russian style”. Steindautt hróksendatafl var komið á borðið þegar Bragi samdi.

Þá voru eftir tvær skákir og Ísland með betra í báðum og stefndi í auðveldan sigur. Aðeins fór um liðsstjóra í skák Helga þegar smá taktíkskir möguleikar virtust vera að birtast í tímahraki. Helgi var þá og var búinn að vera peði yfir en andstæðingurinn mögulega að fá einhver færi á mótspili. Helgi skynjaði stöðuna í viðureigninni og fann leiðir til að einfalda taflið og fékk loks hróksendatafl með 3 vs 2 á sama væng. Yfirleitt er jafntefli þar á ferðinni. Helgi reyndi nokkur skyldutrix en svo var hið óumflýjanlega jafntefli samið. Engu að síður góð skák og nálgun og undirbúningur Helga og lestur á andstæðingi nánast óaðfinnanlegur. Helgi hefði átt sigurinn fyllilega skilið miðað við það!

Að lokum var það skák Hannesar. Sú skák reyndist lengsta skák umferðarinnar og ansi margir liðsstjórar og skákstjórar sem átt þá ósk eina að hún myndi enda svo þeir gætu fengið sér í svanginn! Hannes var að reyna að vinna endatafl skiptamun yfir í mjög langan tíma og einhverjir vinningsmöguleikar voru til staðar en þeir voru mjög litlir þar sem Litháinn hafði áttað sig á því að hann mátti ekki skipta upp á svartreitabiskupum sem er það sem Hannes var að reyna. Hannes hefur líklega verið þrjóskur að reyna að vinna skákina því að hann var með gjörsamlega kolunnið tafl eftir byrjunina sem fór alvarlega úrskeiðis með …c5 leik á vitlausum tímapunkti í caro-kann. Hannes var með stóran plús í tölvunum mjög snemma og hefði átt að slátra andstæðingnum. Í staðinn vann hann skiptamun og sigurinn hefði átt að vera auðsóttur en nokkrar slæmar ákvarðanir og allt í einu var komið mikið hald í svörtu stöðuna. Það mátti þó litlu muna í lokin en Litháinn fann að því að mér sýndist hinn mikilvæga …Kc4 leik í endataflinu en slíkt á að vera atvinnuskákmönnum að fullu kunnugt úr Capablanca-Janowski skák þar sem Janowski gaf þar sem hann áttiaði sig ekki á því að hann þufti að koma kóngnum bakvið peðið.

Sigur því niðurstaðan en hann hefði mátt vera stærri og hefði auðveldlega getað orðið 4-0 og oft stutt á milli í þessu eins og gegn Eistum þar sem við í raun eigum að vinna 2.5-1.5 en töpum 0.5-3.5

 

Rússar halda efsta sætinu með 12 stig en gerðu þó “aðeins” jafntefli við Þjóðverja. Nisipeanu lagði Vitiugov á fyrsta en Dubov vann í einni æsilegustu skák í manna minnum. Svarti kóngurinn var hrakinn þvert og endilangt yfir borðið og mátaður hinumegin á borðinu!

Nokkrar sveitir fylgja á eftir með 11 vinninga og lokaumferðirnar verða spennandi. Úkraínumenn lögðu Tékka 3.5-0.5 og Ivanchuk í toppformi gegn Navara með frábæra skák.

Í kvennaflokki siglir rússneska vélin lygnan sjó og aðeins kraftaverk getur komið í veg fyrir sigur þeirra.

Í áttundu umferðinni mætum við sterkri sveit Hvítrússa. Liðsstjóri þeirra er sjálfur Tukmakov sem á marga sigra að baki sem liðsstjóri og hefur mikla reynslu. Hvítrússarnir hafa nokkra stigayfirburði á efstu tveimur en eru svo með unga, efnilega en jafnframt mjög sterka skákmenn á síðustu tveimur. Við setjum hinsvegar vonir okkar á þau borð og að Hannes og Guðmundur haldi velli.

 

Rétt er að benda á að 9. umferðin á morgun 2. nóvember hefst 11 að staðartíma sem er eldsnemma 7:00 að íslenskum tíma og útsending því 7:15.

- Auglýsing -