Korpúlfar heiðra skákæsku Grafarvogs með verðlaunapening og fótboltamyndum

Að frumkvæði Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi, bauð skákdeild félagsins skákkrökkum Fjölnis til móttöku í glæsilegri félagsaðstöðu Korpúlfa í Borgum í Grafarvogi. Að sjálfsögðu var slegið upp skákmóti, “Æskan og ellin” í Grafarvogi. Áhugasamir skákkrakkar Fjölnis tóku vel við sér og fjölmenntu í Borgir og fengu þar höfðinglegar móttökur. Alls tóku 43 skákmeistarar þátt í skákmótinu, 30 frá Skákdeild Fjölnis og 13 frá Korpúlfum.

Kampakátur Fjölnismaður, Sveinbjörn Jónsson kom , sá og sigraði á 1. skákmóti Korpúlfa og Skákdeildar Fjölnis

Úr hópi heldri borgara voru mættir grjótharðir skákkarlar á við Einar S., Garðar Guðmundsson, Sæbjörn G. Larsen, Magga Pé, Jón Víglundsson og Fjölnismennina Sveinbjörn Jónsson og Finn Kr. Finnsson. Tefldar voru 5 umferðir og ríkti afar jákvæður keppnisandi yfir salnum og gagnkvæm virðing.

Jóhann Helgason formaður Korpúlfa afhendir Joshua Davíðssyni sigurlaun í yngri flokk.

Í lok mótsins var sigurvegara úr hvorum aldursflokki veittur glæsileur eignarbikar og voru það Fjölnisfélagarnir Sveinbjörn Jónsson og Joshua Davíðsson sem hlutu þennan heiður í jafnri keppni. Allir yngri þátttakendur fengu verðlaunapening fyrir góða frammistöðu og rúsínan í pylsuendanum reyndist vera þegar Maggi Pé dreifði fótboltamyndum til krakkanna sem tóku vel við sér og tóku strax við að bítta eða gefa góðum félögum.

80 ára aldursmunur. Heiðursmaðurinn Maggi Pé teflir við Emilíu Sigurðardóttur sem er að byrja skákferilinn. Heiðursmannajafntefli

Þeir Jóhann Helgason formaður Korpúlfa og Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis fluttu ávörp í byrjun og lok þessarar skákhátíðar og lýstu ánægju sinni með glæsilegt framtak og byrjun samstarfs, Stefnt er að þremur heimsóknum í Borgir á hverju ári og verður sú næsta í febrúar 2020.

- Auglýsing -