Arnar Freyr Orrason og Iðunn Helgadóttir að tafli í B-flokki. Mynd: HGE

Skákhátíð MótX var framhaldið þriðjudagskvöldið 14. janúar. Sköpunargleði og þrautseigja svifu yfir andans vötnum enda leiddu saman tréhesta sína snillingar á öllum aldri.

Í A-flokki eru kapparnir Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson efstir og jafnir með fullt hús að tveimur umferðum loknum. Hvortveggi neytti aflsmunar gegn verðugum andstæðingi.

Hjörvar Steinn lagði Andra Áss að velli þar sem sá fyrrnefndi hafði ögn vænlegri stöðu framan af. Kaflaskipti urðu í 27. leik þegar Andra Áss varð á í vörninni.

Skák Guðmundar Kjartanssonar og Dags Ragnarsonar var í járnum fram að miðnætti en lauk með æsilegu og lærdómsríku riddaraendatafli sem sá fyrrnefndi sigldi listilega til sigurs.

Þetta endatafl lætur ekki mikið yfir sér og margir hefðu samið um skiptan hlut þegar hér var komið sögu. Gummi er hins vegar ekki auðginntur til friðarpípunnar og nýtti aðeins betri stöðu til að knýja fram sigur.

Þegar hér var komið sögu hafði Gummi vélað eitt peð af Degi, en Dagur er samt með mótspil í framsæknu frípeði á a-línunni. Báðir voru að tefla á viðbótartímanum sem er 30sek fyrir hvern leik. Hverju skal leika ?

Dagur valdi 72. – Ke8?! sem er tapleikur vegna þess að hvítur vinnur tíma með 73.d6! og núna gengur 73. – a2 ekki vegna þess að 74.dxc7 vinnur. Rétti leikurinn var 72. – Kc8 og hvítur kemst ekkert áfram með peðin. 73. – Ra6 74.Rb3?!  Rétt var einfaldlega 74.Rxa6 a2 75.e6 a1D 76.Rc7+ og hvítur vekur upp drottningu með manni og peði meira. 74. – Kd7?! þarna er hægt að ná mikilvægri skák í komandi leikjaröð. 74. – Kf7 75.Kb5 Rb8 og svartur hefur nægjanleg varnarfæri. 75.Kb5 Rb8 76.Rc5+ Ke8 77.e6 Hvítur er aftur kominn með unna stöðu. 77. – a2 78.Rb3 Kd8 79.Kb6 Kc8

82.e7! Kd7

82– Rd7+ lítur freistandi út, en hinn nákvæmi 83.Kb5! vinnur. 83. – Rf6 84.Kc6 og ekkert fær stoppað d7 og e8D.

83.Kb7 Rc6 84.e8D+! Kxe8 85.Kxc6 Kd8 86.d7 og svartur gafst upp.

Þröstur Þórhallsson og Vignir Vatnar eru báðir hugmyndaríkir skákmenn. Skák þeirra varð líka mjög lífleg og æsispennandi þrátt fyrir að þeir semdu um skiptan hlut eftir að tímamörkunum var náð.

Svartur er hróki yfir en fjórir manna hans eru í uppnámi. Hérna vilja skákreiknarnir leika 36. – Bxf2! í stað Dc6 eins og Vignir Vatnar lék. Hugmyndir er 37.Dxf2 Hxa3!! 38.bxa3 Db1 mát

Fjórða skákin, sem hér er getið sérstaklega, var viðureign Björns Þorfinnssonar og Bárðar Arnar Birkissonar. Hvortveggi er helmingur öflugs bræðratvíeykis. Húnninn lék á als oddi og eftir stutt drottningarflan Bárðar (17.-Db6) nýtti Bjössi sér óvæntan veikleika tveggja léttra manna og eftir það þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Skákinni lauk svo með snotrum örlagahnykk:

25.Bxh6! og svartur gafst upp.  Bxg7+ með mátsókn er óverjandi.

Um önnur úrslit vísast til mótstöflunnar. Þó að á yfirborðinu séu úrslitin klippt og skorin, kraumaði mikil barátta undir yfirborði flestra skákanna og oft speglaði endaniðurstaðan ekki endilega framvindu vopnaviðskipta.

Frekari úrslit má sjá á Chess-Results.

Í B-flokki vann Óskar Maggason óvæntan sigur á Aron Þór Mai. Önnur úrslit voru eftir bókinni nema jafntefli Mikaels Bjarka gegn Ingvari Wu og jafntefli Arnars Freys Orrasonar og Iðunnar Helgadóttur. Í upphafi umferðar sátu keppendur í B-flokki fyrir í upptöku á auglýsingu Kviku banka sem mun fara í loftið innan skamms. Við bíðum spennt eftir útkomunni.

Öll úrslit má sjá á Chess-Results.

Teflt er á hverjum þriðjudegi fram til 18. febrúar og hefst taflmennska klukkan 19:30. Gestir eru velkomnir, heitt á könnunni og bruðerí af bestu gerð! Þriðja umferð fer fram þriðjudaginn 21. janúar.

Heimasíða Hugins.

- Auglýsing -