Fullt hús Sigurbjörn hefur tryggt sér sigur á Skákþingi Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Þó að ein umferð sé eftir hefur Sigurbjörn Björnsson tryggt sér sigur á Skákþingi Reykjavíkur 2020. Frammistaða Sigurbjörns er einkar glæsileg því hann hefur unnið allar skákir sínar, átta talsins, og m.a. unnið Guðmund Kjartansson, Davíð Kjartansson og Vigni Vatnar Stefánsson. Guðmundur er einn í 2. sæti með 6½ vinning, Vignir Vatnar er í þriðja sæti með 6 vinninga og síðan koma fimm skákmenn með 5½ vinning.

Fyrir fram mátti búast við baráttu ofangreindra skákmanna um efsta sætið en eins og mótið þróaðist varð viðureign Sigurbjörns og Guðmundar úrslitaskák mótsins. Sigurbjörn nýtti vel þau færi sem gáfust í byrjun tafls og vann eftir mikla baráttu. Guðmundur gat varist betur, en kóngsstaða hans var afar viðkvæm langtímum saman og það tókst Sigurbirni að lokum að notfæra sér:

Skákþing Reykjavíkur 2020; 5. umferð:

Sigurbjörn Björnsson –

Guðmundur Kjartansson

Fjögurra riddara tafl

1.e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Rc3 Rf6 4. Bb5 Bd6

Óvenjulegur leikur sem hefur notið talsverðra vinsælda undanfarið.

5. 0-0 0-0 6. d3 Re7 7. d4 Rg6 8. dxe5 Rxe5 9. Rxe5 Bxe5 10. Bd3 He8 11. Bg5 c6 12. Kh1 Dc7?

Þessi leikur kemur of snemma. Nákvæmast var 12. … h6.

13. f4 Bxc3

14. e5!

Skemmtilegur millileikur sem setur svartan í mikinn vanda.

14. … Bxe5 15. fxe5 Dxe5 16. Bxf6

Nákvæmara var 16. Hf5!, t.d. 16. … Dxb2 17. Hb1 og nú á drottningin ekki d4-reitinn vegna 18. Hxf6 gxf6 19. Bxh7+ og vinnur.

16. … gxf6?! 17. Hf5 Dxb2 18. Hb1 Dd4 19. Dh5 d5 20. Hf3 f5 21. Hh3 Kf8? !

21. … Df6! gefur svarti síst lakari möguleika.

22. Dh5+ Ke7?

Og enn var betri vörn falin í drottningarleik til g7.

23. He3+ Be6 24. c3 Da4 25. Bxf5?

25. Hxb7+ Kd6 26. He1! vinnur létt.

25. … Kd6 26. Hbe1 Kc7?

26. … Had8! hefði tryggt varnir svarts.

27. Bxe6 Hxe6 28. Hxe6 fxe6 29. Dg7+ Kd6 30. De5+ Kc5 31. De3+ Kb5 32. De2+ Dc4?

Eftir 32. … Ka5 er staða svarts ekki verri. Nú snýr Sigurbjörn taflinu aftur við.

33. Db2+! Ka5

Ekki 33. … Ka6 34. Da3+! og 35. Hb1+ sem vinnur.

34. Dxb7 Hg8 35. Hb1 Dc5 36. Dc7+ Ka6 37. Db7+ Ka5 38. Dc7+ Ka6 39. Df7 Hf8 40. Db7+ Ka5 41. Dc7+ Ka4 42. Dxh7 Hf2 43. Dh4+ Ka5 44. h3 e5?

Svartur gat enn varist með 44. … Hc2 en nú gerir Sigurbjörn út um taflið.

45. Dd8+ Ka4 46. Dc8 a5 47. Dg4+! Dc4 48. Dd1+! Ka3 49. Hb3+ Ka4 50. Hb4+ Ka3 51. Da4 mát.

Mögnuð barátta efstu manna.

Caruana sigraði í Wijk aan Zee

Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana varð langefstur á hinu árlega skákmóti í Wijk aan Zee í Hollandi sem lauk um síðustu helgi. Hann vann fjórar síðustu skákir sínar og hin harða keppni um efsta sætið sem virtist í uppsiglingu milli hans og Magnúsar Carlsen, sem varð í 2. sæti, fjaraði út. Caruana hlaut 10 vinninga af 13 og varð tveim vinningum fyrir ofan Magnús, sem lenti í 2. sæti og hefur nú teflt 120 skákir í röð án þess að tapa.

Ingvar Þór efstur á MótX mótinu

Ingvar Þ. Jóhannesson skaust í efsta sæti á MótX mótinu þar sem teflt er einu sinni í viku í Stúkunni á Kópavogsvelli. Í fjórðu umferð vann hann Hjörvar Stein Grétarsson og er því einn efstur með 3½ vinning. Hann tekur aðra yfirsetu sína í fimmtu umferð en næstir á eftir honum koma Hjörvar Steinn, Guðmundur Kjartansson og Dagur Ragnarsson, allir með 3 vinninga

Skákþættir Morgunblaðsins eru eftir Helga Ólafsson og birtast á Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 1. febrúar 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -