Stofnandinn, Halldór Grétar Einarsson, hættir í stjórn Breiðabliks eftir átta ára stjórnunarár. Mynd: Breiðablik.

Aðalfundur Skákdeildar Breiðabliks var haldinn á fimmtudagskvöldið niðrí Kópavogsstúku. Helstu tíðindi úr stjórn er að stofnandi Skákdeildar Breiðabliks Halldór Grétar Einarsson hættir í stjórn eftir nær 8 ár af frábæru starfi, segist hann ætla að snúa sér að því að tefla sjálfur. Viljum við þakka honum fyrir góð störf og óskum honum góðs gengis.

Starfsemin 2019-2020

Á liðnu tímabili hefur starfsemi Skákdeildarinnar verið mjög fjölbreytt og skemmtileg. Æfingar hófust af fullum krafti í september og meðfram æfingum og mótum var ákveðið að hanna skákbúninga fyrir iðkendur. Um er að ræða stuttermabol og peysu með riddara á hægri ermi og hafa okkar iðkendur sem mæta í búningi á skákmót vakið mikla athygli að undanförnu. Í byrjun nóvember fór 26 manna hópur í keppnisferð til Hasselbacken í Svíþjóð, 11 iðkendur, 13 foreldrar og 2 þjálfarar. Þeir sem tefldu stóðu sig ótrúlega vel og bættu talsvert í reynslubankann. Góður árangur hefur náðst á hinum ýmsu skákmótum á liðnu tímabili og ber þar helst að nefna Íslandsmót ungmenna þar sem iðkendur Skákdeildar Breiðabliks unnu fimm titla af níu. Íslandsmeistararnir: Stephan Briem (U16), Benedikt Briem (U14), Gunnar Erik Guðmundsson (U12), Guðrún Fanney Briem (U10) & Arnar Freyr Orrason (U8). Hörðuvallaskóli sigraði bæði Íslandsmót barnaskólasveita og grunnskólasveita. Sveit Hörðuvallaskóla (Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Breim, Arnar Milutin Heiðarsson, Sverrir Hákonarson og Óskar Hákonarson) varð Norðurlandameistari en þeir eru allir iðkendur Skákdeildar Breiðabliks.

Í byrjun þessa árs fjölgaði iðkendum deildarinnar umtalsvert eftir að boðið var upp á frían æfingamánuð í tveimur nýjum flokkum. Annars vegar flokkur fyrir 2.-4. bekk og hins vegar flokkur fyrir 1. bekk og yngri. Iðkendafjöldi deildarinnar telur 55 iðkendur, miðað við 35 iðkendur í fyrra. Deildin notar Sportabler forritið og hefur það reynst ágætlega. Um miðjan mars breyttist starfsemi deildarinnar verulega vegna Covid-19 og þurfti deildin að hætta æfingum í Stúkunni og Kórnum. Þjálfarar sendu skákþrautir til iðkenda, voru með æfinga myndbönd á Youtube, héldu æfingar í gegnum Zoom forritið og voru með netskákmót í gegnum vefinn chess.com. Æfingar hófust svo að nýju 4. maí og mun tímabilinu ljúka 29. maí með Lokamóti fyrir iðkendur.

Ný stjórn 2020-2021:

Kristófer Gautason Formaður
Kristín Jónsdóttir Gjaldkeri
Birkir Karl Sigurðsson Ritari
Hallmundur Albertsson meðstjórnandi
Agnar Tómas Möller meðstjórnandi
Arnar Ingi Njarðarson meðstjórnandi
Guðný Sigurðardóttir meðstjórnandi
Heiðar Ásberg Atlason varameðstjórnandi

Arnar Ingi Njarðarson. Mynd: Morgunblaðið.

Inní stjórn kemur m.a. Arnar Ingi Njarðarson sem hefur mikla reynslu af skákstjórn og skákmótahaldi sem mun tvímælalaust nýtast okkur vel á komandi starfsári. Björn Ívar Karlsson Fide þjálfari og fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna mun sjá um afreksiðkendur ásamt því að vera með efnilegan framhaldshóp.

Björn Ívar Karlsson. Mynd: Hrafn Jökulsson.

Lagðar voru línurnar fyrir næsta haust og hvernig best væri að hlúa að okkar iðkendum svo að sem flestir næðu þeim árangri sem stefnt er að. Lengd æfinga hjá framhaldshópum verður 90 mínútur í stað 75 mínútur.  Skákdeild Breiðabliks hefur sett sér það markmið að skila sem flestum iðkendum sínum yfir 2000 skákstig fyrir lok grunnskóla og að þeir verði í fremstu röð á Íslandi og geti staðið sig með sóma á alþjóðlegum barna- og unglingaskákmótum.

Hópaskipting Skákdeildar Breiðabliks fyrir næsta haust (Fleiri þjálfarar og æfingar eiga eftir að bætast við en hér fyrir neðan má sjá umsjónarmann hvers flokks)

Afreksæfing
: Björn Ívar (1x í viku 90mínútur. Fyrir þá sem ná afreksmörkum SÍ, hugsað sem umbun fyrir góðan árangur)

Framhalds 2 : Birkir Karl (3x í viku 90 mínútur allir með skákstig)

Framhalds 1: Björn Ívar  (2x í viku 90 mínútur, + sameiginleg (miðað við Blikastig))

2.-5. bekkur: Arnar Ingi (2x í viku + sameiginleg)

  1. bekkur og yngri: Lenka (3x í viku)

Ástundunarviðmið Skákdeildar Breiðabliks(skákæfingar, heimaæfingar, skákmót):

Fyrstu árin: 10klst á viku að jafnaði

Eftir tvö ár og að c.a. 1600 skákstigum: 13klst á viku að jafnaði

Eftir fjögur ár og að c.a. 2000 skákstigum: 16klst á viku að jafnaði

 

Bjóðum við öllum áhugasömum krökkum uppá að mæta og prufa æfingar hjá okkur til 29. maí.

https://breidablik.is/skak/aefingatafla-skak/

- Auglýsing -