Maraþonskák Helgi Áss Grétarsson og Margeir Pétursson við taflið í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Þrír skákmenn, Guðmundur Kjartansson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Áss Grétarsson, eru efstir og jafnir þegar tvær umferðir eru eftir í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands. Seint í gærkvöldi lauk síðustu viðureign sjöundu umferðar milli Helga Áss Grétarssonar og Margeirs Péturssonar með jafntefli eftir 108 leiki. Helgi reyndi lengi að vinna með kóng, riddara og hrók gegn kóngi og hróki Margeirs. Fyrir umferðina hafði Guðmundur Kjartansson ½ vinnings forskot á Helga Áss en tapaði fyrir Birni Þorfinnssyni. Þau úrslit gerbreyttu stöðunni og þar sem Bragi Þorfinnsson náði að vinna Þröst Þórhallsson getur hann einnig blandað sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn 2020. Staðan fyrir áttundu og næstsíðustu umferð sem fram fer í dag er þessi: 1.-3. Guðmundur Kjartansson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Áss Grétarsson 5 v. (af 7) 4. Bragi Þorfinnsson 4½ v. 5.-6. Dagur Ragnarsson og Björn Þorfinnsson 4 v. 7. Vignir Vatnar Stefánsson 3 v. 8. Margeir Pétursson 2 v. 9. Gauti Páll Jónsson 1½ v. 10. Þröstur Þórhallsson 1 v. Það eykur á spennuna að í lokaumferðunum mætast efstu menn. Helgi Áss teflir við Hjörvar Stein Grétarsson í áttundu umferð í dag og hefur svart. Bragi teflir við Margeir Pétursson. Í lokaumferðinni tefla Helgi Áss og Bragi og í sömu umferð Guðmundur og Hjörvar Steinn. Það vakti nokkra athygli í upphafi mótsins að Margeir Pétursson og Þröstur Þórhallsson töpuðu öllum skákum sínum í fyrstu fjórum umferðunum. Því hefði ekki nokkur maður trúað fyrir fram. Í sjöttu umferð náði Margeir sér á strik og vann Hjörvar Stein Grétarsson í góðum stíl. Guðmundur Kjartansson stefnir að sínum þriðja Íslandsmeistaratitli, Helgi Áss vann Íslandsmótið í fyrsta sinn árið 2018 en hvorki Hjörvar né Bragi hafa orðið Íslandsmeistarar. Lítum á skák Guðmundar við Margeir Pétursson í þriðju umferð. Guðmundur kom vel undirbúinn til leiks: Skákþing Íslands 2010; 3. umferð: Guðmundur Kjartansson – Margeir Pétursson Bogo-indversk vörn 1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 Bb4 4. Rbd2 O-O 5. a3 Be7 Önnur leið er 5. … Bxd2+, 6. … b6 o.s.frv. Þannig tefldi Margeir í gamla daga en hann vissi að Guðmundur var vel undir það búinn. 6. e4 d6 7. Be2 Rfd7 8. O-O e5 9. Rb1 a5 10. Rc3 exd4 11. Rxd4 Rc5 12. Be3 a4?! Hæpið því það er hætta á því að svartur tapi þessu peði. 13. Dc2 He8 14. Had1 Bd7 15. Rdb5! Óþægilegur leikur. Hvítur hótar 16. Bxc5. 15. … Rba6 16. Rxa4 Rxa4 17. Dxa4 Bg5 18. Bxg5 Dxg5 19. Dc2 Bxb5 20. cxb5 Rc5 21. f3 De3+ 22. Kh1 He5 23. Bc4 He7 24. Dd2 Það er eðlilegt að þvinga fram drottningaruppskipti peði yfir. 24. … Dxd2 25. Hxd2 b6 26. Hc1 Kf8 27. g3 Ha7 28. Bd5 Eftir þetta er hvíta staðan tæknilega unnin. Hróknum á a7 er haldið úti og hvítur á peði meira. 28. … g6 29. Kg2 f5 30. b4 Rd7 31. exf5 gxf5 32. Hc3 Rf6 33. Bc6 He1 34. Kh3 Ha1 35. Hdd3 Ha2 36. g4 fxg4 37. fxg4 d5 38. Hf3 Kg7 39. Hce3 Re4 40. Bxd5 Rg5 41. Kg3 Ha1 42. Hf5 h6 43. He7+ Kg6 44. Bf7+ Kg7 45. Bb3+ Kg6 46. Bc2 Með þeirri hugmynd að svara 46. … H1xc3+ eða 46. … H7xa3+ með 47. Hf3 fráskák og mátar. 46. … Ha2 47. h4! – Snotur lokahnykkur. Nú er 47. … Hxc2 svarað með 48. h5 mát. Svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 29. ágúst 2020. 

- Auglýsing -