Vignir Vatnar og Hilmir Freyr.

Í dag hefst alþjóðlegt unglingamót í Uppsölum í Svíþjóð. Mótið stendur til 28. október. Tveir íslenskir skákmenn eru þar meðal keppenda en það eru FIDE-meistararnir Hilmir Freyr Heimisson (2352) og Vignir Vatnar Stefánsson (2313). Þeir eru nr. 7 og 8 í stigaröð 40 keppenda.

Það er áskorun að halda alþjóðlegt mót á kórónu-tímum og þurftu mótshaldarar að færa til mótið á milli héraða í Svíþjóð með 3 daga fyrirvara þar sem strangari samkomutakmarkanir höfðu verið settar þar sem mótið átti upphaflega að fara fram. Keppendum fækkaði einnig á endasprettinum þar sem allir erlendu keppendurnir gátu ekki mætt. Mótið hefur farið fram síðan 2014 og hefur Ísland ávallt á þar keppendur.

Fyrsta umferð hefst í dag kl. 14. Báðir tefla þeir við heimamenn. Hilmir við Leo Crevatin (2181) og Vignir við Adrian Söderström (2168). Báðar skákirnar verða sýndar beint.

Skákklúbburinn í Uppsölum, sem stendur fyrir mótinu, ætlar að leggja mikið í beinar útsendingar sem verða í umsjón Fionu Steil-Antoni og sænskra skákmeistara. Í dag verður Nils Grandelius með henni í stúdíóinu. Þær útsendingar hefjast tveimur klukkustundum eftir að umferðir hefjast. Í dag hefst því útsendingin kl. 16.

- Auglýsing -