Teflt í Uppsala Íslendingar hafa verið sigursælir á alþjóðlega unglingamótinu í Uppsala í Svíþjóð. Dagur Ragnarsson og Hilmir Freyr Heimisson unnu þar árin 2016 og 2018. Gengi Vignis Vatnars, sem þarna teflir við Viktoríu Radevu frá Búlgaríu, og Hilmis Freys var í meðallagi í ár. Þeir hlutu báðir fimm vinninga af níu mögulegum. — Morgunblaðið/Heimasíða Uppsala

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að bandaríska meistaramótið fari fram á netinu og tímamörk miðist við það sem gengur og gerist í at-skákmótum, þ.e. 25:5. Sú tilhneiging að stytta umhugsunartímann er ríkjandi í dag eins og kom fram á Altibox-mótinu í Noregi á dögunum. Þar fengu menn tvær klukkustundir til að ljúka 40 leikjum og eftir það 10 sekúndur á hvern leik, þ.e. einhvers konar blanda af kappskák og hraðskák. Persónulega finnst mér óþarfi að skera af umhugsunartímanum eftir því sem lengra líður á skákina og víst er að mörg athyglisverð endatöfl missa gildi sitt. Það getur verið erfitt að átta sig á ýmsum smáatriðum með nokkrar sekúndur á klukkunni og eðlilegra að takmarka umhugsunartímann við byrjun skákar þegar flestir kunna sína lexíu.

Bandaríska meistaramótið er skipað nær öllum bestu skákmönnum Bandaríkjanna að Caruana og Kamsky undanskildum, en sá síðarnefndi virðist ekki vera í náðinni hjá forsvarsmönnum skákmiðstöðvarinnar í St. Louis. Eftir sjö umferðir af ellefu var Wesley So efstur með sex vinninga af sjö mögulegum. Í fyrstu umferð kom upp staða sem sýnir vel hvernig tiltölulega einfaldar jafnteflisstöður geta vafist fyrir mönnum með lítinn tíma aflögu:

Bandaríska meistaramótið 2020:

Wesley So – Alexander Lenderman

Svartur lék nú 92. … Bb5 og eftir, 93. c6 Ba4 94. Kb7 Ke7 95. c7 Bd7 96. c8(D)+ Bxc8 97. Kc8 Kd6 98. Kb7 Kd7 99. b5, gafst hann upp. Það mátti verjast betur með því að bíða og láta síðan biskupinn vinna eftir lengri skálínum: 92. … Be2, t.d. 93. c6 Ke7 94. Kb8 Kd6 95. c7 Bg4 96. c8(D) Bxc8 97. Kxc8 Kc6 og nær b-peðinu.

Wesley So varð í fyrra heimsmeistari í „Fischer-random“ er hann gjörsigraði Magnús Carlsen í einvígi sem fram fór í Noregi. Hann er með léttan og skemmtilegan skákstíl sem minnir talsvert á Tal eða Anand. Lítum á skemmtilega sigurskák hans úr fjórðu umferð:

Samuel Shankland – Wesley So

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. f3 d5 5. a3 Bxc3+ 6. bxc3 c5 7. cxd5 Rxd5 8. dxc5 Da5 9. e4 Re7 10. Be3 0-0 11. Db3 Dc7

Þetta afbrigði Nimzo-indversku varnarinnar var afar vinsælt fyrir 30 árum og sést af og til í dag.

12. Bb5 e5 13. Re2 Be6 14. c4 Rbc6 15. Rc3 Ra5 16. Db4 Rec6 17. Da4 a6 18. Bxc6

Sú leikaðferð hvíts að reyna að koma riddara til d5 með því loka á biskupinn með 14. c4 var hæpin og í þessari stöðu átti hann ekki um annan leik að velja.

18. … Rxc4! 19. Bxb7 Rxe3 20. Bxa8 Dxc5 21. Rd5

Nú stendur svartur frammi fyrir tveimur kostum.

21. … Rxg2+?

Lakari leikurinn. Eftir 21. … Rc2+ virðist hvítur geta haldið velli með 22. Ke2, t.d. 22. … Rxa1 23. Hxa1 Hxa8 24. Dc6!? eða 24. Hd1 en þegar betur er að gáð getur svartur unnið með 22. … Bxd5! t.d. 23. Bxd5 De3+ 24. Kd1 Dd3+ ásamt 25. … Rxa1 o.s.frv.

22. Kf1 Rf4 23. Dc6 Da5

24. Hd1?

Eðlilegur leikur og sá er gallinn! Með 24. Ha2! valdar hrókurinn mikilvæga reiti eftir 2-reitaröðin og á vænlega stöðu.

24. … Bxd5 25. exd5 Dxa3 26. d6 Db2!

Óþægilegur hnykkur. Hvítur er varnarlaus.

27. De4 Dg2+ 28. Ke1 Dxh1+ 29. Kd2 Dxh2+ 30. Kc3 Re2+ 31. Kc4 Rd4 32. d7 Da2 33. Kc5 Da3+ 34. Kb6 Db3+

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 31. október 2020.

- Auglýsing -