Fyrirmynd? Lisa Lane að tafli.

Einn helsti kostur netflixþáttaseríunnar The Queens gambit er sá að efnistökin eru hvorki ódýr né klisjukennd. Aðalpersónan, Beth Harmon, í meðförum leikkonunnar Anya Taylor-Joy, er eitursvöl persóna sem skýtur öllum þeim körlum sem á vegi hennar verða ref fyrir rass. Spennusagnahöfundurinn Stephen King hefur látið svo ummælt að serían sé sú albesta sem komið hafi fram á þessu ári. Frásögnin er trúverðug, spennandi og áleitin. Í umfjöllun um skák hafa Bandaríkjamenn lengi átt erfitt með að slíta sig lausa frá nafni Bobbys Fischers. Í þáttaseríunni er hann hvergi nefndur. Söguhetjan, Beth Harmon, haslar sér þó völl um svipað leyti og söguþráðurinn dregur að einhverju leyti dám af lífshlaupi Fischers og persónuleika: föðurmissir, Moskvuferð, baráttan við sovésku stórmeistarana, óbilandi sigurvilji, lætur illa að stjórn.

Það var galli á kvikmyndinni Pawn sacrifice , sem fjallaði um „einvígi aldarinnar 1972“, að stöður á skákborðinu voru stundum viðvaningslega valdar en í Queens gambit var Kasparov hafður til ráðgjafar og ég gat ekki betur séð en ein lokastaðan væri úr skák hans við Topalov árið 1995.

Uppsetning skákviðburða í Bandaríkjunum er trúverðug; keppendur að mæta með töfl og klukkur, sigurvegarinn tilkynnir úrslit, vingjarnlegir skákstjórar o.s.frv. Þegar sögusviðið flyst til Rússlands myndast biðraðir fyrir utan skákstað, útitöfl hengd upp utandyra fyrir þá sem ekki komast inn, líkt og var í Sovét á ýmsum skeiðum síðustu aldar. Ég rýndi í leikmuni ýmsa, stóra svarta skákklukkan, sem vinsæl var í kringum 1970 reyndist ósvikin vara. Glæsilegur klæðaburður og óaðfinnanleg hárgreiðsla magnar þokka Beth Harmon.

Einstaklingur í keppni er höfundinum, Walter Tevis, hugleikið tilvistarfyrirbrigði, ekki síst sú týpa sem ratað hefur í einhverjar skelfilegar ógöngur og er kannski komin fram á ystu nöf. „Kvikmyndirnar The Hustler og The Color of money , sem báðar skörtuðu Paul Newman, eru byggðar á sögum hans. Tevis bætir við eigin reynslu af lyfjafíkn en það er gjörsamlega útilokað að nokkur geti náð árangri í skák í viðjum slíkrar fíknar. Mikhail Tal var oft heilsutæpur og ánetjaðist sterkum verkjalyfjum en braust úr viðjum þeirra og náði sér aftur á strik.

Mögnuð Anya Taylor-Joy fer aldrei úr karakter sem Beth Harmon.

Styrkleikamunur á körlum og konum á alþjóðavettvangi skákarinnar var gríðarlegur á þeim tíma þegar myndaflokkurinn er látinn gerast. Þetta breyttist allt þegar Judit Polgar og systur hennar komu fram á sjónarsviðið. Bandaríkjamenn áttu eina skákkonu sem fræg var á þessum tíma; Lisu Lane var stundum stillt upp við hlið Bobby s Fischer í fjölmiðlum og prýddi m.a. forsíðu Sports Illustrated árið 1961. Saga hennar er merkileg og margt sem dreif á daga hennar á samsvörun í The Queens gambit . Tímarit létu í veðri vaka að í æsku hefði hún verið vistuð á munaðarleysingjahæli. Erfið skólaganga er nefnd til sögunnar og alvarlegt bílslys. Hún hætti keppni á Hastings-mótinu 1961-’62 er mikill söknuður eftir kærastanum sótti að henni. „Ástin mátar skákdrottningu,“ stóð skrifað í The New York Times . Hvort einhver skilaboð til kvenna fólust í þeirri fyrirsögn skal ósagt látið en Beth Harmon í Drottningarbragði er fulltrúi nýrra viðhorfa og kvenna sem geta allt.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 7. nóvember 2020.

- Auglýsing -