Árni Emilsson lét sig yfirleitt ekki vanta á Friðriksmótin og afhendi verðlaunin árið 2017.

Árni Emilsson fyrrverandi gjaldkeri SÍ lést 17. febrúar, 77 ára að aldri. Sagt er frá andláti Árna á mbl.is í morgun. Árni var um tíma gjaldkeri SÍ og var einn lykilmanna í því þegar húseign SÍ að Faxafeni 12 var keypt.

Sá sem þetta ritar kynntist Árna vel þegar við unnum saman í Búnaðarbankanum og síðar Landsbankanum og varð okkur vel til vina. Árni gerði ávallt það sem hann gat gert fyrir skákíþróttina sem honum þótti afar vænt um.

Árni lék fyrsta leik Friðriksmótsins 2007.

Árni var upphafsmaður Friðriksmóts Landsbankans þegar þau mót hófu göngu sína árið 2004 ásamt þáverandi forseta SÍ, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Þegar hrunið varð 2008 var ég þess fullviss að mótið færi ekki fram – enda skar bankinn niður allan “ónauðsynlegan” kostnað. Ég ræddi málið við Árna sem brosti og sagði glottandi. “Við höldum mótið”. Mótið hélt velli og er enn haldið í desember ár hvert og er einn allra mikilvægasti og skemmtilegasti skákviðburður hvers árs. Fór fram á fyrra á netinu.

Árni átti einnig mikinn þátt þegar Íslandsmótið í skák var haldið á Grundafirði árið 1986.

Ég votta aðstandendum Árna mínar dýpstu samúðarkveðjur. Skákhreyfingin hefur misst einn sinn besta mann.

Gunnar Björnsson

 

- Auglýsing -