Öruggur Hjörvar Steinn Grétarsson vann verðskuldaðan sigur. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hjörvar Steinn Grétarsson var hinn öruggi sigurvegari „Íslandsbikarsins“ sem lauk í aðalútibúi Landsbankans um síðustu helgi. Hann vann Hannes Hlífar Stefánsson tvisvar og hlaut 7 vinninga í átta skákum. Er þetta sennilega besti sigur Hjörvars á innlendu móti. Enn vantar hann titil Skákmeistara Íslands en getur fljótlega bætt úr því; um næstu helgi hefst í Kópavogi keppni í landsliðsflokki.

Fyrir úrslitaeinvígið hafði Hjörvar unnið Vigni Vatnar 2:0 og Guðmund Kjartansson 3:1 en Hannes þá Braga Þorfinnsson og Helga Áss Grétarsson með sömu tölum. Það mátti því búast við harðri rimmu en niðurstaðan varð allt önnur því Hjörvar vann tiltölulega auðveldan sigur, 2:0. Hannes var furðuilla að sér í byrjunum beggja viðureigna. Í seinni skákinni leitaði Hjörvar í smiðju til vinar síns Magnúsar Carlsen og í þeirri fyrri sem hér fer á eftir gerðist þetta:

Íslandsbikarinn 2021 úrslitaeinvígi – Fyrri skák:

Hannes Hlífar Stefánsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Bg5 e6 7. f4 h6 8. Bh4 Rbd7

8. … g5!? er byrjunin á hinu svokallaða og vafasama „Gautaborgarafbrigði“. Þessi leið var aldrei vinsæl hjá helstu sérfræðingum Najdorf-afbrigðisins – og það var líka ástæða fyrir því!

9. Be2

Rólega af stað farið. 9. Df3 á að tryggja betri stöðu á hvítt og 9. Bc4 er einnig góður leikur.

9. … Be7 10. O-O

Alls ekki nægilega beittur leikur. Hví ekki 10. Bg3 sem hótar 11. e5?

10. … Db6!

Seilist eftir „eitraða peðinu„ á b2 og hótar einnig 11. … e5.

11. Bf2 Dxb2 12. Dd3 Rc5 13. Df3 e5 14. Rf5 Bxf5 15. exf5 Hc8

Frá c8 setur hrókurinn pressu á stöðu hvíts. Það er furðu erfitt að finna góðan leik fyrir hvítan.

16. Bc4?!

Þessi eykur aðeins á vandræði hvíts.

16. … b5! 17. Hab1 Dxc2 18. fxe5 dxe5 19. Hfc1 Dd2 20. Rxb5

Hvítur er tveim peðum undir og verður að grípa til einhverra aðgerða. En staðan er töpuð og þessi leikur kann að hafa verið byggður á yfirsjón.

20. … axb5 21. Bxb5+ Kf8 22. Ba6

Kannski ætlaði hann að leika 22. Hxc5 en eftir 22. … Bxc5 23. Bxc5+ Hxc5 24. Da8+ Ke7 25. Da7+ vinnur svartur með 25. … Rd7.

22. … e4! 23. Dg3 Hd8 24. Bxc5 Bxc5 25. Hxc5 Dd4+

– og hvítur gafst upp. 26. Df2 er svarað með 26. … e3! 27. Dc2 e2+ 28. Kh1 Dd1+! o.s.frv.

Það verður gaman að fylgjast með Hjörvari á heimsbikarmóti FIDE sem ef að líkum lætur fer fram á Mön í október/nóvember nk. [Aths. ritstjóra – fer fram í Sochi í Rússlandi í júlí/ágúst). Æskilegt er að hann fari þangað í sem bestri æfingu. Skáksamband Íslands ætti snarlega að koma sér upp plani B varðandi Reykjavíkurskákmótið. Ef hið samhangandi og ódagsetta Evrópumót – sjá heimasíðu FIDE https://www.fide.com/calendar – verður slegið af vegna Covid-faraldursins ber SÍ bókastaflega skylda til að halda lokað Reykjavíkurskákmót í haust. Það ætti ekki að vera erfitt að fá hingað til lands nokkra vel valda erlenda keppendur.

Þessi keppni, Íslandsbikarinn, var góð skemmtun fyrir áhorfendur, jafnteflisprósentan í kappskákunum var nákvæmlega 0%. Margir snjallir leikir sáust og jafnvel afleikirnir fengu vængi t.d. þegar Helgi Áss missti af máti í tveimur leikjum. Nafni gat þó gengið sáttur frá borði því hann tefldi margar skemmtilegar skákir og eina þá bestu gegn Jóhanni Hjartarsyni.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 20. mars 2021.

- Auglýsing -