Jóhann Hjartarson heldur forystu sinni á Íslandsmótinu í skák en hann vann góðan sigur á Sigurbirni Björnssyni sem hann þurfti að hafa mikið fyrir. Hans helsti andstæðingur, Hjörvar Steinn Grétarsson lagði Alexander Oliver Mai með sannkölluðum stórmeistarasvíðingi. Vignir Vatnar er einn í þriðja sæti.

Lítum yfir viðureignir dagsins:

Sigurbjörn Björnsson – Jóhann Hjartarson

Þrátt fyrir að Sigurbjörn hafi átt slæmt mót er hann alltaf skeinuhættur og hefur átt til að veita mönnum í toppbaráttunni skráveifu. Lengi vel stefndi í að Sigurbjörn væri að gera Jóhanni mjög erfitt fyrir. Jóhann fékk örlítið betra úr byrjuninni en hefði Sigurbjörn leikið 25.Rf5 hefði verið mjög erfitt fyrir Jóhann að fá vinningsmöguleika. Eftir það fjaraði smátt og smátt undan stöðu hvíts

 

Hjörvar Steinn Grétarsson – Alexander Oliver Mai

Alexander Oliver lét Hjörvar virkilega hafa fyrir hlutunum í skák þeirra. Alexander valdi passíft en mjög traust afbrigði á svart. Gallinn við afbrigðið er að svartur þarf í raun að þjást mótspilslaus en gegnumbrotið er erfitt. Hjörvar fann hinsvegar á endanum gegnumbrot í tímahraki Alexanders og sigldi sigrinum heim.

Mikilvægur sigur og Hjörvar enn hálfum vinningi á eftir Jóhanni.

 

Hannes Hlífar Stefánsson – Helgi Áss Grétarsson

Hannes fékk betra úr byrjuninni og fann skemmtilega þvingandi leið til að fá aðeins betra endatafl með þungum mönnum. Honum skrikaði hinsvegar fótur og Helgi stökk á tækifærið og fékk unnið tafl….þangað til hann gaf það til baka með hinum óskiljanlega 46…b3 í stað 46…Kd3 sem vinnur nokkuð auðveldlega.

Hannes hélt jafnteflinu en líklegast misstu báðir endanlega af tækifærinu á að vinna titilinn í þetta skiptið.

 

Guðmundur Kjartansson – Bragi Þorfinnsson

Flókin og skemmtileg skák þar sem hart var barist. Bragi tók mikla áhættu í miðtaflinu og hefði líklegast átt góðan séns á að vinna lið þegar menn hvíts stóðu illa á c-línunni. Úr flækjunum náði Guðmundur að véla peð af Braga og reyndi að tefla til vinnings. Í 39. leik leikur Guðmundur af sér skiptamun en staðan var það einföld að Bragi gat aldrei nýtt sér þann liðsmun og jafntefli niðurstaðan.

 

Björn Þorfinnsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Vignir fékk fína stöðu þar sem hann tefldi gegn stöku miðborðspeði Björns. Snemma miðtafls lenti Björn í djöfullegri taktík og Vignir vann snaggarlegan sigur sem hann skýrir í vídeóinu hér að neðan.

 

Staðan

Jóhann heldur hálfs vinnings forskoti á Hjörvar og svo er Vignir Vatnar Stefánsson einn í þriðja sæti. Vignir þarf aðeins hálfan vinning í lokaumferðunum tveimur til að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Titilmöguleikar þeirra sem eru jafnir í 4-7. sæti eru meira og minna úr sögunni.

Pörun 8. umferðar

Jóhann og Hjörvar fá báðir erfiðan andstæðing á morgun þannig að ýmislegt gæti gerst. Mikilvæg skák hjá Vigni sem fær verðugt verkefni gegn Guðmundi.

Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)

KópavogurArion bankiBrim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.

Helstu tenglar

- Auglýsing -