Íslandsmeistarar Nokkrir úr skáksveit Víkingaklúbbsins tefldu á Akureyri um helgina. F.v. Jóhann Hjartarson, Jón Viktor Gunnarsson, Björn Þorfinnsson, Tapani Sammalvuo, Davíð Kjartansson og Haraldur Baldursson. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Davíð Kjartansson sigraði á glæsilegu minningarmóti um Gylfa Þórhallsson sem fór fram í menningarhúsinu Hofi á Akureyri hvítasunnuhelgina. Keppnisdagarnir voru fjórir talsins og mættu 58 keppendur til leiks og voru tefldar 12 umferðir eftir svissneska kerfinu. Snemma móts náði Jón Viktor Gunnarsson forystunni en í 9. umferð tapaði hann fyrir heimamanninum Símoni Þórhallssyni og við það náði Davíð forystunni sem hann lét ekki af hendi. Hann var taplaus í mótinu. Efstu menn urðu: 1. Davíð Kjartansson 10 v. (af 12) 2. Þröstur Þórhallsson 9 v. 3. Jón Viktor Gunnarsson 8½ v. 4.-7. Jóhann Hjartarson, Jón Kristinn Þorgeirsson, Rúnar Sigurpálsson og Símon Þórhallsson 7½ v.

Kvennaverðlaun komu í hlut Elsu Maríu Kristínardóttur, Áskell Örn Kárason hlaut öldungaverðlaunin, Mikhael Jóhann Karlsson varð hlutskarpastur þeirra sem voru undir 2.000 elo-stigum og Benedikt Þórisson náði bestum árangri keppenda undir 1.600 elo-stigum.

Innsæi og aðrar næmar tilfinningar

Undir lok síðustu aldar varð mönnum ljóst að þróun skákforrita væri svo hröð að fyrirsjáanlegt var að innan fárra ára ættu bestu skákmenn veraldar litla möguleika í keppni við bestu forritin. Einvígi Kasparovs við Deep Blue árið 1997 leiddi þetta eiginlega strax í ljós. En getur maðurinn lært eitthvað nýtt af nútímahugbúnaði? Í grein sem birtist í hollenska tímaritinu New in chess veltir Noam nokkur Manella þessari spurningu fyrir sér. Hann telur réttilega að tölvurnar hafi víkkað út sjóndeildarhringinn með því að furðulegir leikir spretta sýknt og heilagt upp við útreikninga tölvunnar. Mannleg nálgun sem byggist á þekkingu, innsæi og hugmyndaflugi og ýmsum góðum kostum öðrum má sín samt lítils gagnvart reiknigetu tölvunnar. Hann líkir leit „vélanna“ að besta leiknum við leikaðferð sem hollenska knattspyrnuliðið Ajax, með Johann Cruyff í broddi fylkingar, notaðist við á árunum í kringum 1970 og var kölluð „total football“. Leikmenn skiptu sífellt um hlutverk á vellinum og stundum dró Cruyff sig svo aftarlega á völlinn eða út á vænginn að mótherjarnir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. „Vélarnar“ skilja ekkert svæði eftir – en maðurinn er alltaf að vinsa úr skynsamlegustu valkostina:

Opið mót í Nýju-Delhí 2012:

Mark Paragua – Das Debashis

Hver er besti leikur svarts?

Nokkrir öflugir skákmenn fengu að spreyta sig á þessu dæmi og einhverjir stórmeistarar stungu upp uppá 23. … He1+ sem er því miður svarað með 24. Bd1 mát! Það er hægt að vera sammála þeirri niðurstöðu greinarhöfundar að í kappskák með takmarkaðan tíma og undir mikill pressu kemur besti leikurinn varla til nokkurs manns í einum grænum en þó vil ég ekki alveg útiloka það.

Besti leikurinn er 23. … Dg4!!

Drottninguna má taka á fjóra vegu og verst er 24. Hxg4 vegna 24. … He1+ 25. Kd2 Bb4 mát! 24. Dxg4 má svara með 24. … Hg8! og 24. Df6+ strandar á 24. … Dg6! og svartur á vinningsstöðu. Eftir 24. hxg4 kemur 24. … Bf4+ 25. Kd1 Bg5 26. Dg3 Hd8! og svartur vinnur. Best er 24. Bxg4+ en svartur varist með 24. … Kg7 25. Bf5+ Bg6 26. Bxg6 fxg6 27. Dg4 Kh8! 28. Dxg6 Bf4+ 29. Kb1 Hf8! og hefur þá hrók og tvo létta fyrir drottninguna.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 29. maí 2021. 

- Auglýsing -