Hetja Pólverja Duda (t.h.) vann seinni at-skákina gegn Magnúsi Carlsen og komst í úrslitin. Dómarinn, Omar Salama, fylgist grannt með viðureign þeirra. — Morgunblaðið/Heimasíða FIDE

Fyrir meira en 100 árum skoraði Pólverjinn Akiba Rubinstein á heimsmeistarann Emanuel Lasker í einvígi um heimsmeistaratitilinn. Af einvíginu varð ekki því að fyrri heimsstyrjöldin braust út. Rubinstein gleymdist ekki og var oft nefndur í sömu andrá og Capablanca, Lasker eða Aljékín. Síðan þá hafa Pólverjar eignast marga frábæra skákmenn en engan sem ógnað hefur þeim allra bestu eða þar til nú að hinn 23 ára gamli Jan Krzysztof Duda slær Magnús Carlsen úr 4-manna úrslitum heimsbikarmótsins í Sotsji og bætir svo um betur með því að leggja Sergei Karjakin í úrslitaeinvígi keppninnar, 1½:½. Hann er því sigurvegari heimsbikarkeppni FIDE og fær keppnisrétt í næsta áskorendamóti.

Sigur Duda yfir Carlsen vakti mikla athygli en seinni at-skák þeirra réð úrslitum en jafntefli hafði orðið í báðum kappskákunum og fyrri at-skákinni. Fyrirfram var búist við sigri Magnúsar sem hafði hvítt í lokaskákinni en hann valdi meinlaust afbrigði sikileyjarvarnar og lenti snemma í varnarstöðu. Undir lokin náði hann upp jafnteflisstöðu en umhugsunartíminn var af skornum skammti og keppnisharka Duda skilaði vinningi i land. Norðmaðurinn tefldi því um um þriðja sætið við Rússann Fedoseev og vann báðar skákirnar með tilþrifum.

Vignir Vatnar stóð sig vel í Serbíu

Hinn 18 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson er sá íslenskur skákmaður er greinilega er í mikilli framför. Þrjú alþjóðleg mót í Serbíu bera þess merki. Vignir stóð sig vel í fyrsta mótinu og því þriðja en lenti í talsverðum mótbyr í móti númer tvö er hann tapaði fjórum síðustu skákum sínum. Reis upp aftur í því þriðja og komst í efsta sætið eftir sex umferðir með 4½ vinning. Hann tapaði að vísu í 7. umferð og féll við það niður í 3.-4. sæti, og er ½ vinningi á eftir efstu mönnum fyrir síðustu umferð. Vignir stefnir leynt og ljóst að stórmeistaratitli og reynslan hefur sýnt að þátttaka í mótum á þessum slóðum er gott veganesti. Greinarhöfundur hefur rennt yfir skákir Vignis frá þessum mótum og það er ljóst að skilningur hans hefur dýpkað og leiktæknin er góð eins og eftirfarandi skák sýnir ljóslega:

Akva Gold 3 – 2021; 6.umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Miroslav Markovic

Pirc-vörn

1. d4 d6 2. e4 g6 3. Rc3 Bg7 4. f4

Ein hvassasta leiðin gegn Pirc-vörninni.

4. … Rc6 5. Bb5 a6 6. Bxc6+ bxc6 7. e5 Rh6 8. Rf3 0-0 9. 0-0 Hb8 10. Hb1 f6 11. De2 Kh8?

Alltof hægfara. Hér var best að leika 11. … Bg4.

12. h3 Rf5 13. Hd1 Dd7?

Einkennilega leikið. Hví ekki 13. … fxe5 strax?

14. g4 Rh6

15. e6!

Besti kosturinn.

15. … Dxe6 16. Dxe6 Bxe6 17. He1 Bd7 18. Hxe7 Hf7 19. He1 f5

Enn gat svartur losað um sig með c6-c5.

20. g5 Rg8 20. Bd2 Re7 22. b3 Kg8 23. a3 Kf8 24. Kf2 He8 25. Ra2!

Víkur fyrir biskupinum sem er á leið til a5.

25. … Bc8 26. c4 Bb7 27. Ba5 Rc58 28. Rc3 Hfe7 29. Hxe7 Hxe7 30. c5 Hd7 31. He1 Kf7 32. Re2 Re7?

Gáir ekki að sér en svarta staðan var þröng og erfið viðureignar.

33. Bxc7! dxc5 34. Be5 cxd4 35. Bxg7 Kxg7 36. Rexd4 Rd5 37. Re6+ Kg8 38. Rc5 Hc7 39. Kg3 Bc8 40. Re5 Kg7 41. h4 a5 42. Rc4 Ha7 43. He8!

 

 

 

 

Snyrtilegur lokaleikur. Svartur getur sig hvergi hrært án þess að tapa liði. Hann gafst því upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 7. ágúst 2021. 

- Auglýsing -