Einbeitni: Unga kynslóðin situr svip sinn Reykjavíkurskákmótið/EM. Hér tefla þau saman, Gunnar Erik Guðmundsson og Iðunn Helgadóttir.

Frakkinn Maxime Lagrade, Hovhannes Gabusjan frá Armeníu og Rauf Mamedov frá Aserbaídsjan eru efstir og jafnir eftir fimm umferðir af ellefu á Reykjavíkurskákmótinu/Evrópumóti einstaklinga sem stendur yfir þessa dagana á Hotel Natura í Reykjavík. Þeir eru allir með 4½ vinning. Níu skákmenn eru með 4 vinninga.

Keppendur eru 180 talsins, heldur færri en á síðustu Reykjavíkurskákmótum en takmarkanir vegna Covid-faraldursins eru skýringin þar á. Hjörvar Steinn Grétarsson er efstur Íslendinganna með 3½ vinning. Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Vignir Vatnar Stefánsson eru með 3 vinninga. Hannes Hlífar vann stigahæsta keppandann, Englendinginn Gawain Jones, í þriðju umferð sl. laugardag.

Armeninn Robert Hovhannisjan komst enn í efsta sætið eftir fjórar umferðir á Reykjavíkurskákmótinu/EM. En hann þurfti að tefla við Rauf Mamedov í fimmtu umferð í gær og tapaði án þess að fá rönd við reist. Armenskir skákmenn hafa átt erfitt samband við hina ágætu skákmenn frá Aserbaídsjan á liðnum árum en Mamedov er einn öflugasti skákmaður þeirra og hefur margoft náð frábærum árangri fyrir ólympíusveit þeirra.

Reykjavíkurskákmótið/EM einstaklinga; 5. umferð:

Rauf Mamedov – Robert Hovhannisjan

Reti-byrjun

1. Rf3 d5 2. g3 Bg4 3. Bg2 e6 4. O-O Rf6 5. h3 Bh5 6. c4 c6 7. d4 Be7 8. Rc3 O-O 9. Re5 Rbd7 10. g4 Bg6 11. Rxg6 hxg6 12. cxd5 exd5 13. Db3 Db6 14. Hd1

Eins og skákskýrandi mótsins, Ivan Sokolov, skýrði út fyrir áhorfendum þá tekur hvítur á sig peðaveikleika á b3 en hyggst opna taflið með e2-e4.

14. … Dxb3 15. axb3 Re8 16. e4 dxe4 17. d5!

Snarplega leikið. Það liggur ekkert á að taka e4-peðið.

17. … Rc5 18. dxc6 bxc6 19. Be3 Rxb3 20. Ha6 Bc5 21. Rxe4 Bxe3 22. fxe3 Rc7

Hann hefði betur leitað eftir uppskiptum á riddurum með 22. … Rf6.

23. Hxc6 Re6 24. Rd6 Had8 25. Bd5!

Með óbærilegum þrýstingi á f7-peðið. Lok skákarinnar tefldi Mamedov óaðfinnanlega.

25. … Rbc5 26. b4 Ra4 27. Bb3 Rb6 28. Hf1 Kh7 29. Rxf7 Hxf7 30. Hxf7 Rg5 31. Hxa7 Hd2 32. Kf1 Rd7 33. Ha2 Hd3 34. Bc2 Hxe3 35. Bxg6 Kh6 36. Bf5 Rf6 37. h4

– og svartur gafst upp.

 

 

Sá stóri sleppur stundum

Stærsti sigur hinnar ungu kynslóðar á Reykjavíkurskákmótinu/EM kom í fyrstu umferð er Hilmir Freyr Heimisson lagði ungverska stórmeistarann Tamas Banusz, 2661 elo, í aðeins 25 leikjum. Hilmir vann Lenku Ptacnikovu í gær og er með 2½ vinning. Í fyrstu umferð mótsins munaði litlu að gamall skólafélagi hans úr Salaskóla í Kópavogi, Birkir Ísak Jóhannsson, ynni einnig er hann tefldi við tyrkneska stómeistara Vahap Sanal:

Vahap Sanal – Birkir Ísak Jóhannesson

Tyrkinn lék síðast 23. Hf1-f2 . Þessi leikur lítur skynsamlega út, hvítur hyggst tvöfalda á f-línunni og auka einnig þrýstinginn á stöðu svarts. En þegar vel er að gáð kemur í ljós að svartur á afar öflugan svarleik sem gerir út um taflið, 23. … Rb4! Eftir 24. Dxd7, sem liggur beinast við, kemur 24. … Rxd3 sem hótar einfaldlega 25. … Rxf2 mát. Hvítur á enga leið út úr ógöngunum. Þannig dugar 24. Db3 skammt vegna 24. … a4! o.s.frv. Því miður greip Birkir ekki tækifærið og lék 23. … b6 sem Sanal svaraði með 24. Hef1 og hættan var liðin hjá. Að lokum vann hvítur í 53 leikjum.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 31. ágúst 2021

- Auglýsing -