TG vann öruggan sigur á Íslandsmeisturum Víkingaklúbbsins. Mynd: GB

Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram á nýjum stað með nýju fyrirkomulagi um síðustu helgi og óhætt að segja að sú breyting hafi gengið vel. Aðstæður í Fjölnishöllinni í Egilshöllinni voru til mikillar fyrirmyndar og úrvalsdeildarfyrirkomulagið virðist falla í góðan farveg. Ritstjóri fer yfir gang mál og ber saman við spána fyrir mótið.

Spár ritstjóra varðandi efsta toppliðið voru ávallt úti á túni. Þeim liðum sem spáð var toppsætinu eru öll í 5. og 6. sæti. Ritstjóri var hins vegar afar glöggur þegar kom að botnbaráttunni

Úrvalsdeild

Ritstjóri var bjartsýnn fyrir hönd Víkingaklúbbsins. Þeir komu hins vegar mun veikari til leiks en ritstjóri gerði ráð fyrir. Og það þrátt fyrir að enn séu fimm umferðir eftir eru Víkingarnir úr leik í toppbaráttunni. Sex stig á eftir TG er einfaldlega allt of mikið til að vinna upp.

Hið „nýja“ TG hefur byrjað vel á sína „fyrsta móti“ og hefur 9 stig af 10 mögulegum. Sænsku „málaliðarnir“ á 3.-5. borði hafa heldur betur staðið fyrir sínu.

Sænsku „málaliðarnir“áttu stóran þátt í góðu gengi TG í fyrri hlutanum.

TR-ingar eru í 2. sæti með 7 stig og Fjölnismenn koma þar á eftir með 6 stig. Sigur Fjölnismanna á TR í lokaumferðinni opnar heldur betur mótið upp á gátt fyrir þá.

Sama hvert þessara félaga vinnur munu það teljast nokkur tíðindi. Fjölnir hefur aldrei unnið keppnina, TG hefur ekki unnið keppnina síðan 1992 og TR vann síðast keppnina fyrir hrun, árið 2008. Reyndar hafa fyrirrennarar í Reykjavíkurranni TG (Hellir og Huginn) unnið keppnina sjö sinnum. Síðast árið 2016.

Staðan er þung fyrir Skákfélag Akureyrar. Ég hef enga trú á öðru en Víkingar bíti í skjaldarrendur og komi sér úr fallbaráttunni.  Akureyringar verða því heldur betur að sækja á Blika, sem náðu glimrandi árangri í fyrri hlutanum, ætli þeir að bjarga sér frá falli.

Staðan (spá ritstjóra í sviga)

1 (2) TG 9 stig (27½ v.)

2 (3) TR 7 stig (24½ v.)

3 (4) Fjölnir 6 stig (21½ v.)

4 (6) Breiðablik 4 stig (15 v.)

5 (1)Víkingaklúbburinn 3 stig (16½ v.)

6 (5) SA 1 stig (15 v.)

Chess-Results

1. deild

Kostar – gæti Þorsteinn liðsstjóri TV verið að hugsa.

Ritstjóri spáði SSON öruggum sigri en selfyska vélin hefur hikstað þrátt fyrir að vera með áberandi sterkasta liðið á pappírnum. Selfyssingar geta hins vegar komið til baka í síðari hlutanum og barist um toppsætið og sæti í úrvalsdeild. Sama sæti og þeir reyndar afþökkuðu í ár. Eyjamenn eru hins vegar sterkir og það er í þeirra eigin höndum að vinna deildina.

Í þessari deild eru sex lið í toppbaráttunni. Gæti orðið afar spennandi í vor. Fallbaráttan virðist hins vegar ráðin.

Staðan (spá ritstjóra í sviga

1 (4) TV 7 stig (15½ v.)

2 (6) SA 6 stig (16½ v.)

3 (3) TR-b 5 stig (15½ v.)

4 (5) KR 5 stig (15 v.)

5 (1) SSON 5 stig (14 v.)

6 (2) TG-b 4 stig (11½ v.)

7 (8) TG-c 0 stig (4½ v.)

8 (7) Víkingaklúbburinn-b 0 stig (3½ v.)

Chess-Results

2. deild

Guðmundur Daðason var í flottri Breiðabliks-treyju.

B-sveit Breiðabliks er efst með 8 stig, Skákgengið í öðru sæti með 6 stig. Fjögur lið hafa 4 stig og baráttan getur orðið afar spennandi í vor. Sem fyrr virðist ritstjóri hafa verið sannspár um botnbaráttuna en öðru máli gegnir um spá hans um toppbaráttuna. Skákgengið sem hann spáði 6. sæti er í 2. sæti en Hrókar alls fagnaðar, sem spáð var sigri, er í 6. sæti.

Staðan (spá ritstjóra í sviga)

1 (2) Breiðablik-b 8 stig (17 v.)

2 (6) Skákgengið 6 stig (17 v.)

3 (3) Haukar 4 stig (15 v.)

4 (5) Fjölnir 4 stig (13 v.)

5 (4) TR 4 stig (12 v.)

6 (1) Hrókar alls fagnaðar 4 stig (10½ v.)

7 (7) SAUST 2 stig (9 v.)

8 (8) TG-d 0 stig (2½ v)

Chess-Results

3. deild

C-sveit SA er í góðum málum.

C-sveit SA og d-sveit TR eru á toppnum með fullt hús stiga. Vinaskákfélagið er þriðja sæti með 6 stig. Ritstjóri hélt að b-sveit SSON væri betur skipuð og virðist hafa vanmetið styrk d-sveitar TR. Sem fyrr er ritstjóri með botnbaráttuna miklu betur á hreinu en toppbaráttuna!

Staðan (spá ritstjóra í sviga).

1 (3) SA-c 8 stig (21½ v.)

2 (6) TR-d 8 stig (20 v.)

3 (2) Vinaskákfélagið 6 stig (16½ v.)

4 (5) KR 12 stig (12 v.)

5 (4) TV-b 4 stig (9 v.

6 (1) SSON-b 2 stig (7½ v.)

7 (8) Hrókar alls fagnaðar 0 stig (6 v.)

8 (7) SSON-c 0 stig (3½ v.)

Chess-Results

4þ deild

Krókurinn var vann Norðanslaginn við Goðverja.

Sauðkrækingar eru efstir með fullt hús stiga. Eru væntanlega of sterkir fyrir þessa deild. TR-e og TR-f eru í 2.-5. sæti ásamt c-sveit Breiðabliks. Goðinn er í fimmta sæti.

Undirritaður hélt að Goðinn kæmi eilítið sterkari til leiks og er sem fyrr í ruglinu varðandi spá á toppliðinu. Einnig virðist ritstjóri hafa almennt vanmetið styrk TR-sveita í neðri deildum.

Aðeins var spáð fyrir um topp fimm sveitirnar.

Staðan (spá ritstjóra í sviga)

1 (2) Sauðárkrókur 8 stig (17½ v.)

2 (-) TR-e 6 stig (17½ v.)

3 (-) TR-f 6 stig (15 v.)

4 (3) Breiðablik-c 6 stig (14½ v.)

5 (1) Goðinn 5 stig (16 v.)

Chess-Results

Að lokum

Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir skemmtilega helgi. Samstarfið við Fjölni og Helga Árnason var til mikillar fyrirmyndar. Aðstaða á skákstað til mikillar fyrirmyndar.

Ritstjóri fann þessi glæsilegu ungmenni á skákstað.

Starfsfólk mótsins var frábært. Gaman að hafa úrvalsdeildina í beinni og fyrirkomulag úrvalsdeildar, sem hefur heldur betur tekið langan tíma að koma á, hefur gengið vel.

Gunnar Björnsson

- Auglýsing -