Kynslóðamótið í skák verður haldið í 17. sinn á sunnudaginn kemur, þann 17. október í Skákhöllinni í Faxafeni.

TAFLFÉLG REYKJAVÍKUR og RIDDARINN f.h. skákklúbba eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu með stuðningi JÓA ÚTHERJA – leiðandi fyrirtækis á sportvörumarkaði – standa saman að mótshaldinu eins síðast. Mótið hefur eflst að vinsældum með árunum og skipar nú fastan sess í skáklífinu. Mótið féll niður í fyrra vegna sóttvarnatakmarkanna.

Fyrstu 9. árin var mótið haldið í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þar sem Riddarinn átti áður aðsetur sitt, en nú síðustu 7 skiptin í samsstarfi við TR – elsta og öflugasta taflfélag landins. Þessi mót – þar sem kynslóðirnar mætast – hafa jafnan verið fjölsótt jafnt af yngri sem eldri skákmönnum og afar velheppnuð. Yfir 80 ára aldursmunur er hefur iðulega verið milli yngsta og elsta keppandans.

Þátttaka í mótinu er ókeypis og miðast við börn og ungmenni á grunnskólaaldri, 15 ára og yngri og roskna skákmenn, 60 ára og eldri. Mótið hefst kl. 13 og tefldar verða 9 umferðir með tímamörkunum 5 mín. + 3 sek. á leik.

Vegleg verðlaun og viðurkenningar.

Auk aðalverðlauna verða veitt aldurs-flokkaverðlaun í 3 flokkum ungmenna og öldunga. Fyrir þrjú efstu sæti í barna og unglingaflokkum, 9 ára og yngri; 10-12 ára og 13-15 ára og fyrir efstu menn í 3 öldungaflokkum, 60-69 ára; 70-79 ára og 80 ára og eldri. Auk þess fær sú yngismær sem bestum árangri nær og yngsti og elsti keppandi mótsins sérstök heiðursverðlaun.

Mótsnefnd skipa þeir Ríkharður Sveinsson, formaður TR og skákstjóri, Einar S. Einarsson, Erkiriddari og mótsstjóri, og Magnús V. Pétursson, f.h. Jóa Útherja.

Skráning til þátttöku fer fram á www.skak.is og www.taflfelag.is Hámarksfjöldi miðast við 80 keppendur og því mikilvægt að skrá sig til þáttttöku sem fyrst og/eða mæta tímanlega á mótsstað.

- Auglýsing -