“Borgin okkar 2021”  styrkti skákskemmtilefrð Fjölniskrakka.

Skákdeild Fjölnis bauð 40 skákkrökkum deildarinnar í ævintýralega og skemmtilega skákferð austur fyrir fjall. Stíf dagskrá frá kl. 12.00 – 18.00.

 

Auk Fjölnismanna voru þeir Helgi Ólafsson og Björn Ívar Karlsson skákkennarar með í för. Ferðast var með rútu frá Hópferðamiðstöðinni.

Dagskráin byrjaði á girnilegri pítsaveislu í Ölverki í Hveragerði þar sem eigendurnir Laufey Sif og Elvar stjönuðu við gesti og sáu til þess að allir fengju nægju sína. Næst lá leiðin í Laugardæli að leiði heimsmeistarans fv. Robert James Fischer´s. Þar sagði Helgi Ólafsson góðvinur heimsmeistarans krökkunum frá undrabarninu og skáksnilli Fischers.

Eftir kirkjugarðsheimsóknina var haldið í sjálft Fischersetrið á Selfossi þar sem Aldís Sigfúsdóttir umsjónarmaður tók á móti okkur og bauð upp á mjög góða aðstöðu setursins til skákkennslu. Þarna var dvalið í rúma tvo tíma við skákkennslu og taflmennsku undir leiðsögn Helga Ólafssonar og Björns Ívars. “Rúsínan í pylsuendanum” á þessu ævintýraferðalagi var loks heimsókn í Ísbúð Huppu á Selfossi. Þar hafði Jana vaktstjóri kallað út aukavakt því von var á okkar stóra hópi. Vel gekk að afgreiða hópinn og uppáhaldsís hvers og eins stóð til boða.

Ferðin og dagskráin var eins og áður segir öll í boði Skákdeildar Fjölnis sem naut frábærs styrkjar úr verkefnasjóði Reykjavíkurborgar “Borgin okkar 2021”.

Skákdeild Fjölnis vill þakka Reykjavíkurborg fyrir þennan frábæra stuðning og þeim Helga Ólafssyni og Birni Ívari Karlssyni fyrir þátttökuna með skipulagðri kennslu.

- Auglýsing -