Hasselbacken Open og Lilla Hasselback Open fóru af stað í gærkvöld. Tefldar voru fjórar umferðir í báðum mótum með atskák fyrirkomulagi, 15 mínútur á skákina með 5 sekúndna viðbótartíma.

Mikill fjöldi Íslendinga er í báðum mótunum, opna mótið mótið er fyrir sterkari og reyndari skákmenn í hópnum en „Lilla“ er fyrir nýrri skákmenn og styttra komna. Í báðum mótum fer okkar fólk vel af stað!

Alþjóðlegi stórmeistarinn „eldheiti“ Vignir Vatnar Stefánsson er í fínum málum á aðal mótinu með þrjá sigra og eitt jafntefli í atskákunum. Vignir er efstur Íslendingana en fóstbræður hans úr Blikum, Benedikt Briem, Stephan Briem og Birkir Ísak Jóhannsson hafa allir þrjá vinninga. Stephan og Birkir án taps eftir tvær jafnteflisskákir.  Gunnar Erik Guðmundsson hefur 2,5 vinning en aðrir minna.

Rétt er þó að minnast á þátt Mikaels Bjarka Heiðarssonar. Mikael hefur 2 vinninga úr skákunum fjórum en hann gerði sér lítið fyrir og lagði 1800 stiga mann í fyrstu umferð og gerði svo jafntefli við sænska stórmeistarann Thomas Ernst í þriðju umferð! Sannarlega flottur áfangi þarna hjá Blikanum unga.

Á Lilla Hasselbacken er Birkir Hallmundarson í banastuði með 3,5 vinning af 4 og svo hafa þau Guðrún Fanney Briem, Sigurður Páll Guðnýjarson og Markús Orri Jóhannsson 3 vinninga af 4.

Yfir helgina eru svo tefldar kappskákir, tvær á dag og alls 8 umferðir í heildina.

Heimasíða aðal mótsins

Lilla Hasselbacken

- Auglýsing -