Þungt hugsi Hjörvar Steinn við taflið í Riga. — Morgunblaðið/Heimasíða FIDE

Hjörvar Steinn Grétarsson er meðal 108 keppenda sem taka þátt í FIDE Grand Swiss-mótinu sem hófst í Riga í Lettlandi á miðvikudaginn. Hjörvar og fáeinir aðrir komust inn í mótið eftir að nokkrir keppendur hættu við þátttöku vegna Covid-19-faraldursins. Sá nafntogaðasti í þeim hópi var bandaríski stórmeistarinn Hikaru Nakamura. Þetta er langsterkasta mót sem Hjörvar hefur tekið þátt í. Verður gaman að fylgjast með frammistöðu hans í Riga en stigahæstir keppenda eru Caruana, Aronjan, Firouzja og Vachier-Lagrave. Stigalægsti keppandinn er með 2.467 elo-stig. Tefldar verða 11 umferðir og er keppt um tvö sæti í áskorendakeppninni sem fram fer á næsta ári. Þess má geta að REK/EM-mót einstaklinga, sem fram fór á Hotel Natura á dögunum, gaf 23 sæti. Mótshaldið er á undanþágu frá stjórnvöldum en 21. október sl. gengu í gildi afar strangar sóttvarnareglur í Lettlandi en í gildi er útgöngubann í 10 klst. hvern sólarhring.

Hjörvar gerði jafntefli við Úkraínumanninn Andrei Volotkin í 1. umferð en tapaði fyrir Norðmanninum Aryan Tari í 2. umferð. Í 3. umferð, sem fór fram í gær, átti Hjörvar að tefla með svart við Amin Tabatabaei frá Íran. Eftir fyrstu tvær umferðirnar voru þrír skákmenn búnir að vinna báðar skákir sínar: Alireza Firouzsja frá Íran, Rússinn Alexandr Predke og Ivan Saric frá Króatíu. 42 skákmenn voru með 1½ vinning.

Vignir Vatnar iðinn við kolann

Vignir Vatnar Stefánsson varð í 3. sæti á afmælismóti Örebro-skákklúbbsins í Kaupmannahöfn sem lauk um síðustu helgi. Vignir hlaut sex vinninga af níu mögulegum og varð einn í 3. sæti en Vladimir Hamievici frá Moldóvu varð efstur með 7½ vinning. Vignir gerði stuttan stans hér heima, tefldi eina skák í 2. umferð á hinu svonefnda Yfir 2.000 elo-móti TR, boðaði ½ vinnings yfirsetu í næstu umferð og hélt í bítið til Uppsala í Svíþjóð til að tefla þar á opnu móti skipuðu nokkrum af bestu ungu skákmönnum Norðurlandanna, þ.á m. Hilmi Frey Heimissyni og Alexander Oliver Mai.

Eins og sakir standa beinist athyglin að Vigni og Hjörvari og ekki úr vegi að rifja upp viðureign þeirra frá Íslandsmótinu í mars sl. Hún var tekin til meðferðar á vefsíðu Chessbase á dögunum:

Skákþing Íslands 2021

Vignir Vatnar Stefánsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Drottningarbragð

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 a6

Óvenjulegur leikur sem Magnús Carlsen hefur gert vinsælan.

5. c5 b6 6. cxb6 cxb6 7. Bf4 Bd6 8. Bxd6 Dxd6 9. e3 Rbd7 10. Bd3 Bb7 11. Hc1 0-0 12. 0-0 b5 13. Rd2 e5 14. dxe5 Rxe5 15. Rf3 b4 16. Re2 Rxf3+ 17. gxf3

Spurning er hvað best sé að að gera við hinni stöðulegu hótun 18. Rd4. Hjörvar fann svarið.

18. … d4!

Lætur peð af hendi en opnar fyrir biskupinn.

18. Rxd4 Hfe8 19. Be2 Rd5 20. Kh1 Had8 21. Hg1 Df6 22. Hg4

Vigni hefur varla geðjast að 22. Hg3 sem má svara með 22. … Rf4! t.d. 23. Bf1 Re6! o.s.frv.

22. … h5 23. He4 Hxe4 24. fxe4

24. … Dxf2! 25. Rf3

Eða 25. exd5 Hxd5! og vinnur. Meira viðnám fólst í 25. Rc6 þó að svartur eigi rakinn vinning með 25. … Bxc6 26. Hxc6 Rxe3! 27. Dxd8+ Kh7 28. Dg5 De1+! 29. Dg1 Dxe2 30. h3 Df3+ 31. Kh2 Df4+! o.s.frv.

25. … Dxe3 26. Hc4 He8 27. exd5 Dxe2 28. Dxe2 Hxe2 29. Hd4 Hf2 30. Hd3 Hxf3!

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 30. október 2021. 

- Auglýsing -