Fyrri keppnisdagur af tveimur fór fram á Landsmótinu í skólaskák í dag. Tefldar voru fimm atskákir af þeim níu sem fram munu fara. Teflt er við góðar aðstæður hjá Siglingafélaginu Ými í Kópavogi.

Keppendur fyrir utan skákstað

Hefjum yfirferð á deginum í eldri flokki, nemenda í 8-10. bekk. Þar hófst fjörið strax í 1. umferð. Stigahæsti keppandinn, Benedikt Briem, lenti í vandræðum gegn Iðunni Helgadóttur sem blés til sóknar og eftir slakan …e5 leik tapaði Benedikt manni sem var of mikið.

Þeir Adam Omarsson og Sæþór Ingi Sæmundarson byrjuðu hvað best í flokknum og leiddu mótið eftir fjórar umferðir. Sæþór tefldi eins og herforingi og hér er dæmi um baráttuna hjá honum þar sem hann sýnir styrkleika hrókana á sjöundu reitaröðinni.

 

Adam byrjaði vel

Adam bauð upp á fína sóknarskák í þriðju umferðinni gegn Iðunni

Bæði Adam og Sæþór töpuðu í 5. umferðinni og það gaf þeim Gunnari Erik og Ingvari Wu tækifæri á að ná þeim að vinningum með 3,5 vinning. Ingvar vann mikilvægan sigur á Benedikt Briem í fjórðu umferð.

Ingvar gegn Benedikt

Benedikt átti slakan dag en er samt aðeins hálfum vinningi á eftir efstu mönnum eftir „tröllgrís“ gegn Adam í 5. umferðinni.

Ljóst er að spennan verður hreint mögnuð í eldri flokki og líklegt að úrslitin ráðist ekki fyrr en alveg í lokaumferðunum.

Yngri flokkur

Nokkuð ljóst er að spennan verður einnig mikil í yngri flokki. Engu að síður var það Guðrún Fanney Briem sem stal senunni og vann hverja skákina á fætur annarri.

Guðrún kom greinilega vel gíruð inn í mótið en hún kom beint úr „búrinu“ þar sem hún varði eins og berserkur og tryggði HK 2-1 sigur. Þessi harka kom sér vel í fyrstu tveimur skákunum þar sem hún náði á ótrúlegan hátt að svíða tvö „mislinga“ endatöfl, þ.e. endatöfl með mislitum biskupum sem ansi oft enda með jafntefli.

Mikilvægur sigur gegn Mikael Bjarka var einnig fengin á keppnishörkunni!

Guðrún er efst með 5 vinninga af 5 og var hress eftir daginn.

Matthías Björgvin er í öðru sæti með eitt tap en hann vann mikilvægan sigur á Mikael Bjarka í 5. umferðinni í skák sem hæglega hefði getað endað á hinn veginn.

Matthías var þokkalega brattur eftir daginn.

 

Mótið á Chess-Results: Eldri flokkur | Yngri flokkur

Beinar útsendingar

Skákir mótsins á PGN

Fleir myndir

Keppendur fyrir utan skákstað

Margar skemmtilegar skákir fóru fram á „lifandi“ vefmyndavél sem send var út frá umferðinni:

- Auglýsing -