Mætti ofjarli sínum Nils Grandelius við taflið á Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Sá sem þessar línur ritar hefur lengi verið þeirrar skoðunar að við yfirferð á vel tefldri skák megi lesa margt út úr persónuleika teflenda. Það er kannski of djúpt í árinni tekið að halda því fram að undireins sé skákmaðurinn kominn í sófann og sálgreining hafin. En því er nú samt þannig farið að stundum virðist eitthvað ólga undir niðri, einhver orka sem þarf útrás. Maðurinn er kannski að flestu leyti dagfarsprúður einstaklingur sem aldrei hefur gert flugu mein. Svo eru aðrir sem sjaldan víkja út af fyrirfram ákveðnum leiðum, tefla sömu byrjanirnar aftur og aftur og eru þannig séð þekkt stærð. Hvað er hægt að segja um slíka einstaklinga? Ég var að fara yfir skák sem Magnús Carlsen tefldi á fyrsta keppnisdegi móts sem kallað er Chessable masters og er tengt fyrirtækjum sem norski heimsmeistarinn hefur afskipti af. Andstæðingur hans var góðkunningi okkar og besti skákmaður Svía nú um stundir, Nils Grandelius. Magnús sem var með svart vann í 30 leikjum og þegar skákin er skoðuð kemur margt fróðlegt í ljós sem lýtur þó fyrst og fremst að þeirri þekkingu sem þessi frægi skákmaður hefur tileinkað sér. Nokkru eftir hið fræga mót, Reykjavik rapid 2004, tók hann nokkrar „sessjónir“ með Kasparov. Og hver „gægist fram“ í 18. leik annar en Garrí sjálfur? Að leika peðinu beint ofan í þrælvaldaða reitinn, það er málið. Eitthvað á þessa leið talaði Kasparov um þetta skemmtilega leikbragð sem margoft kom fyrir í skákum hans. Tökum þá byrjun skákarinnar. Magnús vill greinilega koma andstæðingnum á óvart eins fljótt og auðið er; 3. … Rf6 er í sjálfu sér ekki nýr leikur en hefur að markmiði að taka andstæðinginn út úr þægindarammanum. En sá þáttur sem er hvað mest áberandi í þessari skák lýtur að leppunum. Þetta fyrirbrigði á skákborðinu kemur margoft við sögu eða liggur í loftinu – lokar taflinu. Þar við bætist gildi biskupaparsins í opnum stöðum og „smáfórnir“ ýmsar sem eru eitt einkenni í skákstíl Norðmannsins. Skemmtileg skák en ekki gallalaus og tefld með tímamörkunum 15 10.

Chessable masters 2022; 3. umferð:

Nils Grandelius – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. c3 d5 3. exd5 Rf6

Fyrsta hliðarsporið. Langalgengast er að leika 3. … Dxd5.

4. Bb5+ Rbd7 5. c4 a6 6. Bxd7+ Dxd7 7. d4?!

Fyrsta ónákvæmnin. Mun betra er 7. Rc3, t.d. 7. … e6 8. De2 o.s.frv.

7. … e6 8. Be3 exd5 9. dxc5 dxc4 10. Ra3 Rd5 11. Bd4 Rf4 12. Kf1 Dd5 13. Rf3 Bf5 14. Da4+ Bd7

15. Db4

Vegna hins slaka 7. leiks hefur hvítur ratað í mikla erfiðleika. Hann sá að 15. Dxc4 tapar strax vegna leppunarinnar, 15. … Bb5! og vinnur.

15. … b6?!

Ivan Sokolov hefur kallað slíka leiki smáfórnir Magnúsar. Hann getur svarað 16. Dxb6 með 16. … Rd3, en 15. … Bh3! strax var þó betra.

16. He1 Re6 17. Dxb6 f6 18. Rc2 c3!

Beint ofan í valdaða reitinn.

19. bxc3 Kf7 20. Re3 Dc6 21. h3 Rxc5 22. Dxc6?

Hann hefði átt að halda spennunni í stöðunni með 22. Hb1!

22. … Bxc6 23. Ke2 Re6! 24. g3 Rxd4 25. cxd4 Bb5+ 26. Kd1 Bb4

Skyndilega eru biskuparnir allsráðandi.

27. Rd2 Hac8 28. Rd5 Ba4 29. Ke2 Hhe8 30. Re3 Hc2

Leppaður í bak og fyrir, 31. Hd1 má svara með 31. … Hxa2 o.s.frv. Grandelius gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 21. maí 2022.

- Auglýsing -