Vignir Vatnar Stefánsson (2496) fékk einn vinning í gær í 4. og 5. umferð á Copenhagen Chess Challange sem fram fór í gær í Ballerup. Hilmir Freyr Heimisson (2323) hlaut hálfan vinning.
í 4. umferð vann Vignir FIDE-meistarann Viktor Haarmark Nielsen (2323) en Hilmir gerði jafntefli við við sænska stórmeistarann Erik Blomqvist (2523). Í síðari skák dagsins tapaði Vignir fyrir ítalska stórmeistaranum Sabino Brunello (2521) en Hilmir fyrir danska alþjóðlega meistaranum Martin Haubro (2428).
Vignir hefur 2½ vinning en Hilmir hefur 2 vinninga.
Áfram gakk! Tvær umferðir eru tefldar í dag og hófst sú fyrri kl. 8. Í þeirri fyrri teflir Vignir við danska alþjóðlega meistarann Filip Boe Olsen (2407) en Hilmir við Brunello. Í þeirri síðari mætir Vignir þýska FIDE-meistaranum Jonas Hacker (2396) en Hilmir danska FIDE-meistaranum Nicolai Kvist Brondt (2241).
Um er að ræða túrbó-mót sem teflt er á fimm dögum.
Stefán Bergsson (2090) og Gauti Páll Jónsson (2065) sitja að tafli á alþjóðlegu móti við Helsingjaeyri. Þeir tefla báðir í átta manna flokkum. Flokkaskiptingin í fyrirrúmi!
Aðeins ein umferð fór fram í gær. Stefán tapaði og Gauti Páll gerði jafntefli. Félagarnir og nágrannarnir hafa 1½ vinning. Tvær umferðir fara fram í dag.