Skák Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lék fyrsta leikinn fyrir heimsmeistarann Magnús Carlsen í gær. — Ljósmynd/FIDE/Lausanne

Nokkuð var um óvænt úrslit á fyrsta keppnisdegi heimsmeistaramótsins í Fischer-random eða Chess 959, eins og Magnús Carlsen orðaði keppnisgreinina og vísaði til þess að tekinn hefur verið frá sá valkostur er varðar hefðbundna upphafsstöðu sem menn hafa notast við öldum saman. Það var einkum 2:0-sigur hins 18 ára gamla Úsbeka, Abdusattorovs, yfir Jan Nepomniachtchi sem kom á óvart. Þá tapaði Magnús Carlsen seinni skákinni fyrir Nakamura, sem komst við það í efsta sæti B-riðils. Mótið fer þannig fram að því er skipt upp í tvo fjögurra manna riðla og komast tveir efstu menn í útsláttarkeppni og eftir það er heimsmeistaratitillinn undir. Hinir fjórir munu tefla um 5.-8. sætið. Tímamörk eru 25:5 en viðbótartíminn, þ.e. fimm sekúndurnar, byrjar fyrst að tifa eftir 30 leiki.

Staðan í A-riðli eftir gærdaginn er þessi:

1. Abdusattorov 3½ v. (af 4). 2.-3. Wesley So og Nepomniatchchi 2 v. 4. Hjörvar Steinn ½ v.

Í B-riðli er staðan þessi:

1. Nakamura 3 v. 2.-3. Magnús Carlsen og Fedoseev 2 v. 4. Bluebaum ½ v. Hjörvar Steinn Grétarsson gerði jafntefli við Wesley So eftir æsispennadi baráttu og 100 leiki. Hann tapaði seinni skákinni og síðan báðum fyrir Nepo. Hann mun tefla fjórar skákir samtals við félaga sína í A-riðli.

Magnús Carlsen í sviðsljósinu

Þó að mál heimsmeistarans gagnvart Banndaríkjamanninum Hans Niemans séu á allra vörum er talið ólíklegt að þau muni hafa mikil áhrif á Norðmanninn, sem er gríðarlegur keppnismaður og á auðvelt með að tengja frá ytri aðstæðum. Hann hefur ekkert tjáð sig um þau mál en örlítið um þá ákvörðun sína að afsala sér heimsmeistaratitlinum sem þýðir að áhorfendur á Hotel Berjaya gætu verið að fylgjast með næsta heimsmeistara en Rússinn Jan Nepomniachtchi mun á næsta ári tefla um titilinn við Kínverjann Liren Ding. Norðmaðurinn á auðvitað þann kost að taka upp annan „titil“ sem fyrirrennari hans, þrettándi heimsmeistarinn Garrí Kasparov, skreytti sig gjarnan með eftir að hafa tapað heimsmeistaraeinvíginu fyrir Vladimír Kramnik í London árið 2000; upp á ensku var það: World nr. 1.

Wesley So hefur áður reynst Magnúsi Carlsen erfiður viðfangs

Úsbekinn Nodirbek Abdusattarov gerði sér lítið fyrir í gærkvöldi og vann sigurvegara tveggja síðustu áskorendamóta, Rússann Jan Nepomniachtchi, 4:0 í einvígi þeirra á heimsmeistaramótinu í Fischer-random eða slembiskák, eins og nafn greinarinnar hefur verið þýtt á íslensku.

Þessi 18 ára gamli piltur hafði tryggt sig áfram í útsláttarkeppni fjögurra efstu skákmanna áður en lokadagur undankeppninnar rann upp. Með því að vinna báðar skákirnar gegn Nepo í gær var hann kominn með 9 ½ vinning af 10 mögulegum sem er fáheyrð frammistaða í móti af þessum styrkleika. Hann slakaði örlítið á í seinna einvíginu við Wesley So og tapaði, ½:1½. Filippseyingurinn, sem er núverandi heimsmeistari í greininni, verður að láta sér lynda að tefla um 5. sætið við Rússann Fedoseev. Nepo fylgir Abdusattarov í úrslitakeppnina og mætir Magnúsi Carlsen á morgun, laugardag, en keppendur fá frí í dag.

Magnús Carlsen og Nepo tefldu einvígi um heimsmeistaratitilinn í Dúbaí í fyrra en því lauk með yfirburðasigri Magnúsar, 7½ : 3½, en Rússinn gerði sér lítið fyrir og vann svo áskorunarréttinn aftur í sumar. Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Magnús ákveðið að afsala sér heimsmeistaratigninni og mun Nepo mæta Kínverjanum Liren Ding í næsta einvígi um titilinn.

Undankeppni heimsmeistaramótsins fór fram með býsna flóknu kerfi þar sem skipt var í tvo riðla og tefldu allir við alla í hvorum riðli, alls fjórar skákir sem aftur skiptust upp í tvö einvígi og gaf sigur 2 stig en jafntefli eitt sig.

Í A-riðli urðu úrslit þessi:

1. Abdusattarov 10 stig ( 10 v. )

2. Nepomniachtchi 7 stig (7 v. )2. So 6 stig (5 ½ v.)

4. Hjörvar Steinn Grétarsson (1 stig) 1 ½ v.

Í B-riðli urðu úrslitin:

1. Magnús Carlsen 9 stig (8 v.)

2. Nakamura 9 stig (7½ v.)

3. Fedoseev 4 stig (5½ v.)

4. Bluebaum 1 stig (3 v.)

Vinningatala réð því að Magnús telst sigurvegari riðilsins.

Í fjögurra manna úrslitum á morgun, laugardag, tefla Magnús Carlsen og Jan Nepomniachtchi og Hikaru Nakamura fær það verkefni að eiga við við Nodirbel Abdusattarov.

Þótt Magnús hafi marið sigur í sínum riðli tapaði hann þó samanlagt fyrir Nakamura, 1½ : 2½, og var taflmennska hans í slöku meðallagi að þessu sinni. Hann spillti unnum stöðum bæði á móti Nakamura og Fedoseev í gær.

Fulltrúi Íslands á mótinu, Hjörvar Steinn Grétarsson, vann góðan sigur í gær í fyrri skákinni við Wesley So. Hann var í góðum færum í seinni skákinni en missti þráðinn og tapaði. Átti síðan rakið jafntefli í skákinni gegn Nepo en virtist leita að vinningsfærum er hann gat knúið fram jafntefli.

Hjörvar mun á sunnudaginn tefla við Þjóðverjann Bluebaum um 7. sætið.

Lenka efst á Íslandsmóti kvenna

Lenka Ptacnikova hefur enn forystu á Íslandsmóti kvenna sem fram fer samhiða Fischer-random-mótinu.Hún gerði jafntefli við norsku skákkonuna Olgu Dolzhikovu og hefur 3½ vinning eftir fjórar umferðir. Mótið er opið erlendum keppendum og mótherji Lenku frá því í gær er í 2. sæti með 3 vinninga.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 28. október 2022.

- Auglýsing -