Vendingarnar í heimsmeistaraeinvíginu í Astana í Kazakhstan virðast engan endi ætla að taka Í dag áttust þeir við í áttundu einvígisskákinni. Ding Liren stýrði hvítum mönnunum gegn Ian Nepomniachtchi.

Ding hóf taflið á 1.d4 og leyfði að þessu sinni Nimzo-indverska vörn með því að leika 3.Rc3. Áður hafði Ding leikið 3.Rf3 í einvíginu og prófað hugmynd Rapport, 4.h3. Nánar um það síðar.

Ding tefldi hið svokallaða Rubinstein afbrigði með 4.e3 og lék svo í kjölfarið 5.a3 og tók á sig tvípeð fyrir sterkt peðamiðborð. Strategía sem hefur þegar gefið honum eina vinningsskák í þessu einvígi.

Níundi leikur Ding, 9.Ha2!? er svo nýjung í stöðunni. Engin kappskák hefur teflst með þessum leik. Hinsvegar er til risastór gagnagrunnur af skákum tefldum á netinu. Á lichess.org er einn slíkur og margir nota spilararnn þar til að skoða skákir. Í stöðunni eftir 9.Ha2 er til EIN skák tefld af tveimur skákmönnum með 1500 stig. Líklegast bara tilviljun….eða hvað?

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þessir 1500 stiga skákmann hafa.

  • Bara teflt við hvorn annan
  • Reikningarnir voru stofnaðir á sama tíma
  • Skákir þeirra voru tefldar fyrir mánuði

Stærsti punkturinn er þó að í mörgum skákanna kemur fyrir afbrigðið með 4.h3 sem Ding tefldi í 2. einvígisskákinni. Líkurnar á að einhverjir „random“ gaurar út í heimi tefli við hvorn annan og endurtaki tvær nýjungar sem komu í einvíginu eru nánast hverfandi, hreinlega ÚTILOKAÐ! Í ofanálag eru skákir sem passa við byrjanir Ding með svörtu þannig að hér er um að ræða hreint ótrúleg mistök hjá Ding og hans liði.

Ian Nepomniachti og hans lið hefur hreinlega aðgang að líklegast flestum hugmyndum Ding í einvíginu. Þetta er risastórt og setur mikið strik í reikninginn hjá Ding!

Ljóst er að framundan er mikið drama tengt þessum leka! En klárum að fara yfir hvað gerðist í 8. einvígisskákinni.

Ding tefldi í kjölfarið á þessari Ha2 nýjung mjög skemmtilega og fórnaði manni snemma tafls með 12.h4!?

Slíkar fórnir hafa löngum gengið undir nafninu „Fishing Pole Trap“ á ensku, og því hér veiðistangar-brella á ferðinni hjá Ding. Nepo tók manninn en hvítur vinnur hann til baka í kjölfarið.

Ding tefldi framhaldið mjög hvasst og voru miklar sviptingar á báða bóga. 20..Bb7! var flottur leikur hjá Nepo og 24.Hd2! flottur hjá Ding. Nepo urðu á mistök með 22…Bxe4?? og Ding stóð til vinnings.

Á ögurstundu lék Nepo 31…Dh4 sem er besta praktíska vonin.

Ding átti þvingaðan vinning með því að taka hrókinn sem Nepo bauð honum upp á að taka. Ding hefur vafalítið verið hræddur við þráskákina en hvítur sleppur út með þvingaðri leið sem lítur nánast út eins og skákþraut. Hvítur tekur hrókinn og fer svo með kónginn út á mitt borðið og sleppur!

Anand er hrifinn af þessu einvígi og segir það fara í sögubækurnar!

Þrátt fyrir að Ding hafi misst af þessum möguleika var hann ennþá með töluvert betra og mikla vinningsmöguleika.

37. leikur hans Bf3 var hinsvegar ekki góður, 37.Bc6 heldur góðum vinningsmöguleikum. Þess í stað fann Nepo bestu vörnina, 37…Rxf2! og skömmu síðar hafði taflið einfaldast í hróksendatafl sem er jafntefli.

Ótrúleg skák með mögnuðum sviptingum!

Ding var spurður út í orðrómana en fékkst ekki mikið upp úr honum.

Skákin

Einkunnabókin

- Auglýsing -