Ian Nepomniachtchi náði að setja langa og erfiða pressu á Ding Liren sem náði að halda velli í 82 leikjum, lengsta skák einvígsins til þessa. Enn og aftur var 1.e4 e5 á boðstólnum í skák þar sem Nepo hefur hvítt. Ding breytti til, kannski einhverjum til ama, og valdi Berlínarvörnina.

Þrátt fyrir að byrjunin sé nokkuð traust varð úr nokkuð dýnamískt miðtafl. Fyrsta spurningin var hinsvegar hvort að annar „leyniaðgangur“ Ding Liren hefði uppgötvast.

15…Dc7!? er nánast nýjung en lichess reikningurinn iRobot3 (sem er reyndar lokaður núna) var með eina skák í þessari línu. Þessi iRobot3 var svo eins og reikningarnir sem uppgötvuðust í gær með 3 skákir við  annan reikning þar sem allir byrjanirnar pössuðu nokkurn veginn við eitthvað sem búast mætti við frá Ding Liren. Í þetta skiptið er lekinn þó bæði ólíklegri og ekki jafn skaðlegur, fjöldinn af æfingaskákum sem að hinn reikningurinn lak var einfaldlega of mikill en óvissan er meiri með þennan reikning. Má einnig vera að hér sé einhver af aðsoðarmönnum Ding að æfa eitthvað.

Hvað um það, Ding fékk trausta stöðu en lék ónákvæmt í 17. leik sínum 17…Hb8?! líklegast hefði verið best að leika strax 17…Bf8 til þess að koma riddaranum sem fyrst á c5. Þess í stað vann Nepo smá tíma með hótunum á kóngsvæng og Ding varð að hafa sig allan við til að hafa stjórn á þeim. Hann fór í mótspil á drottningarvæng.

Mótspilið virtist nægja en önnur ónákvæmni í 24. leik þvingaði Ding til þess að fórna skiptamun í þriðja skiptið í einvíginu 26…Be6. Hinar skiptamunsfórnirnar hafa gengið upp þó að í seinna skiptið hafi úrslit skákarinnar ekki verið eftir því. Hér hafnaði hinsvegar Nepo fórninni en líklegast hefur svartur nægar bætur ef fórninni er tekið.

Ding var nokkuð brattur í vörninni.

Hér fórnaði hann t.d. peði með 38…Rd4!? sem er engan veginn þvingað en Ding hefur talið endataflið með 3 peð gegn 2 á sama væng auðvelt. Svo auðvelt að Ding bauð Nepo að tvöfalda peð sín á f-línunni

Nepo hafnaði því boði og reyndi áfram að pressa en eftir 82 leiki var ljóst að varnir Ding héldu.

Skákin

Einkunnabókin

- Auglýsing -