Staðan á toppnum er óbreytt eftir 7. umferð. Þeir forystusauðir Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson unnu báðir sínar skákir og hafa 6 vinninga af 7. Sem fyrr eru þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson hálfum vinningi á eftir en þeir lögðu báðir stórmeistara að velli í dag.
Hvítu mennirnir réttu aftur úr kútnum í dag, skiljanlega þar sem hinir fjórir fræknu höfðu allir hvítt. Fimm skákir unnust á hvítt og ein á svart.
GM Hannes Hlífar Stefánsson (5) – WGM Lenka Ptácníková (2½)
Eftir frábæra byrjun hefur aðeins sigið á ógæfuhliðina hjá Lenku. Skák dagsins misheppnaðist fljótlega eftir byrjunina, en Lenka valdið drekaafbrigðið í sikileyjarvörn. Hannes vann sigur í aðeins 21 leik og sína sjöttu sigurskák í röð!
GM Guðmundur Kjartansson (5) – IM Dagur Ragnarsson (1½)
Guðmundur náði að byggja upp vænlega sóknarstöðu á kóngsvæng. Degi var ekki farið að lítast á blikuna og gaf peð til að blíðka goðin og vonast eftir mótspili. Það var ekki langt frá að raungerast og lét hann Guðmund hafa sig allan frammi til að sigla vinningnum í hús.
IM Hilmir Freyr Heimisson (4½) – GM Bragi Þorfinnsson (2½)
Alvöru prófraun hjá Hilmi til að skera úr um hvort hann heldur sér í baráttunni um titilnn og mögulega stórmeistaraáfanga. Hilmir hafði hvítt á stórmeistarann Braga Þorfinnsson og fékk þægilega betra miðtafl þar sem þó gat allt gerst. Eftir að hrókar Braga hópuðust á furðulegan hátt á a-línuna fékk Hilmir kjörið tækifæri á að gera út um skákina, hann gerði rétt og opnaði taflið með 30.d5! en missti svo af 32.Hxf7! sem hefði verið rökrétt framhald og í stíl Hilmis. Þess í stað var tæknileg úrvinnsla ansi löng og Hilmir varð nánast að vinna skákina aftur.
GM Vignir Vatnar Stefánsson (4½) – GM Henrik Danielsen (2)
Það var alvöru stórmeistarabragur á þessari skák hjá Vigni. Hvítur tefldi eins og þrautreyndur og sjóaður stórmeistari og saumaði VVS-vélin jafn og þétt að Henrik. Virkilega flott pósa-skák hjá Vigni! Henrik hefur líklegast sjaldan áður tapað fimm skákum í röð enda með traustan stíl. Það er hinsvegar staðan eftir að Henrik opnaði mótið á tveimur sigurskákum.
GM Jóhann Hjartarson (3) – Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2½)
Alexander heldur betur að rétta úr kútnum. Eftir erfiða byrjun hefur hann nú lagt tvo sterka stórmeistara að velli í röð. Í dag náði hann að hafa betur í flækjum í Najdorf-afbrigði sikileyjarvarnar gegn Jóhanni Hjartarsyni.
GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2½) – Jóhann Ingvason (½)
Hjörvar fékk hartnær unnið tafl strategískt eftir að hann kom peði sínu með hvítu á b6 snemma tafls. Fyrir stórmeistara eins og Hjörvar er slíkt staða aðeins spurning um úrvinnslu sem var ekki vandamál í dag.
Vel hvítur dagur og lítið um jafntefli enn eina ferðina. Engin jafntefli alla helgina, alvöru barátta!
Staðan óbreytt á toppnum og stefnir í æsispennandi lokasprett!
Baráttan heldur áfram í 8. umferðinni. Lykilviðureign hjá Hannesi og Hilmi Frey. Guðmundur fær svart á Henrik sem á inni að bíta frá sér. Vignir fær svart á Aleksandr Domalchuk-Jonasson sem er orðinn heitur! Alvöru veisla!
Allir skákirnar eru í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar á YouTube.
Útsendingar á netinu hefjast því ekki fyrr en kl. 15:15. Skýringar á milli 16 og 16:30.
Styrktaraðilar mótsins eru
- Hafnarfjarðarkaupstaður
- Algalíf
- Teva
- Lengjan
- Guðmundur Arason
- MótX
Tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- BEinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chessbase)
- Beinar útsendingar (kingwatcher)