Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2412) og Margeir Pétursson (2423) tefla þessa dagana á flokkaskiptu móti í Póllandi, Ustron Chess Festival. Báðir eru þeir í Masters flokknum þar sem 54 keppendur taka þátt. Margeir er 10. stigahæsti maður mótsins en Aleksandr sá 13. stigahæsti.

Aleksandr byrjar vel og hefur unnið báðar skákir sínar. Í dag fékk hann hvítt á pólskan skákmann Piotr Kjena (2235). Skemmst er frá því að segja að okkar maður vann frekar auðveldlega. Á köflum var eins og sá pólski væri að reyna að gefa peð sín, svo skiptamun og svo skipti hann upp í endatafl. Ekki góður dagur hjá Pólverjanum sem hlýtur að geta betur miðað við elóstig….eða kannski lætur okkar maður menn bara líta svona illa út’?

Margeir fékk svart á Pólverjann Przemyslaw Zdybal (2223). Úr varð rússibanaskák. Margeir fékk stöðutýpu sem hann þekkir mögulega manna best, svart í Maroczy bind. Margeir yfirspilaði andstæðing sinn í miðtaflinu og fékk mun betra.

Í stað 30…e6 hefði 30…Hac8 líklega verið vænlegast skv. tölvuforritunum. Hvítur virðist ekki geta valdað c4 peðið og 31.Rd5 strandar á 31…Rxc4.

Hér í stað 34…Re5 mátti svartur gefa d6 peðið með 34…Dg5! hvítur má ekki taka 35.Dxd6 De3+ 36. Kh1 Hc8 og hvítur tapar liði.

Það virtist alltaf vanta  herslumuninn hjá svörtum að brjóta hvítan niður en sá pólski hélt velli og náði meira að segja að snúa taflinu við en skv. pgn-skránni hefur hvítur boðið jafntefli eftir 56.Kf2. Þá meta tölvuforritin stöðuna +6 á hvítt! Það virðist eitrað að ýta c-peðinu áfram fljótlega.

Margeir slapp því með skrekkinn en hefði átt að vera búinn að klára skákina í miðtaflinu.

Aleksandr fær svart á enska alþjóðlega meistarann Harry Grieve (2449) á morgun en Margeir fær hvítt á Piotr Kjena (2235) andstæðing Aleksandr frá því í dag.

´Héðinn að tafli.

Héðinn Steingrímsson tekur þátt 10th Annual Washington International í Bandaríkjunum. Um er að ræða hraðmót sem keyrt er á 5 dögum með 4 tvöföldum dögum. 51 keppandi er skráður til leiks og er Héðinn sjöundi í stigaröðinni.

Í fyrstu umferðinni fékk Héðinn svart á Bijan Tahmassebi (2172). Upp kom spænskur leikur og Héðinn jafnaði taflið nokkuð auðveldlega en náði aldrei að fá góð færi. Hvítur hafði eitthvað þægilegra tafl þegar Héðinn bauð jafntefli sem var samþykkt.

Í seinni umferðinni vann Héðinn sigur gegn Mitch Fishbein (2157) þar sem Héðinn hafði hvítt.

Stefán Steingrímur Bergsson (2135) fékk Þjóðverjann Richard Müller (2244) á opnu alþjóðlegu móti í Þýskalandi. Stefán náði að leggja hann að velli í góðri skák. Stefán lýkur því leik með 5,5 vinning af 8 og stendur í stað á stigum. Stefán teflir ekki í lokaumferðinni en það lá fyrir fyrir mótið.

Sigurður Ingason að tafli Mynd: Skák.is/Gerd Densing.

Sigurður Ingason situr einnig að tafli í Búdapest á hinusögufræga First Saturday móti. Sigurður teflir í Round-Robin flokki þar sem tefld er tvöföld umferð. Sigurður er stigalægstur í flokknum og teflir um 250 stig upp fyrir sig í hverri skák.

Í sjöundu umferðinni tefldi Sigurður við Torok Tamas Titusz (1996) og tapaði. Sigurður hefur aðeins gefir eftir eftir fína byrjun á mótinu.

- Auglýsing -