Seinni skákir undanúrslita á Heimsbikar mótinu í Baku í opnum flokki fóru fram í dag og á sama tíma í úrslitum í kvennaflokki. Aðeins Magnus Carlsen hafði sigur í skák sinni í gær í opna flokknum og í kvennaflokki vann Anna Muzychuk í baráttunni um þriðja sætið, aðrar skákir enduðu með jafntefli.

Magnus Carlsen (2835) – Nijat Abasov (2632)

Heimamaðurinn Nijat Abasov kemur yfirleitt aðeins of seint í skákirnar og engin breyting var á því í dag. Abasov þurfti að vinna með hvítu og skákin hófst á handabandi Magnus Carlsen við loftið.

Abasov tefldi eins og oft áður London-system með hvítu en fékk ekki nægjanlega mikið til að valda Carlsen vandræðum. Fjöldakaup urðu á mönnum og Carlsen komst í endatafl með jafnt á liði. Svipað og gegn Ivanchuk ákvað Carlsen að tefla aðeins áfram og hélt hann væri jafnvel að valda Abasov vandræðum með þríhyrningstilfærslu (e. triangulation) í endataflinu.

Carlsen viðurkenndi að leikur Abasov d6 hafi komið honum í opna skjöldu hann taldi að kóngurinn gæti alltaf farið og náð í peðið. Hugmyndin var hinn skemmtilegi leikur 57.Bg4!!

Skyndilega breyttist flæði skákarinnar. Carlsen sem var meira og minna að leika sér að eldinum varð nú að finna leið til að slökkva eldinn og bjarga jafntefli. 57…Bxg4 strandar á 58.f5 og peðið verður ekki stoppað. Eina leiðin var að fórna biskupnum eins og Carlsen gerði og bjarga sér svo með peðunum á drottningarvæng.

Magnus því kominn í úrslitin. Athyglisvert er að stigahæsti maður mótsins hefur ekki unnið það síðan Gelfand árið 2009!

Abasov getur gengið stoltur frá borði en hann á þó eftir að tefla um 3. sætið.

 

Fabiano Caruana (2782) – Rameshbabu Pragganandhaa (2707)

Flókin skák í Catalan-byrjuninni. Caruana með svart virtist ná einhverju frumkvæði og sénsarnir frekar hans megin lengst af. Mikil uppskipti urðu og báðir höfðu samstæð frípeð. Eftir að þeir náðu að höggva sitt hvort peðið af þessum samstæðu var orðið friðsælt yfir öllu saman og jafntefli samið.

Þeir þurfa bráðabana á morgun til að skera úr um hvor mætir Magnus Carlsen í úrslitum.

 

Kvennaflokkur

Öskubuskuævintýri Salimovu fékk næstum því mögnuð sögulok í dag en sagan heldur áfram…

Alexandra Goryachkina (2504) – Nurgyul Salimova (2403)

Æsispennandi skák í dag. Goryachkina tefldi drottningarbragðið af fítonskrafti með svörtu og fékk klárlega betri stöðu eftir byrjunina. Salimova tefldi vörnina vel og náði svo að trikka peð af þeirri rússnesku. Svo annað peð!

Dauðafæri hér á að vinna heimsbikarmótið, tveimur peðum yfir! Með einhverri ótrúlegri seiglu, ekki ósvipað og hjá Caruana gegn Dominguez fyrr í mótinu náði svartur að verjast tveimur peðum undir. Ekki nóg með það heldur endaði svartur á að pressa á hvítt með hrók og riddara gegn hrók. Minnir um margt á rússíbanaskák Ju Wenjun fyrr í mótinu sem einmitt var tveimur peðum undir og vann svo með hrók og riddara gegn hrók!

Salimova náði tökum á taugunum og varðist vel í lokin. Jafntefli því niðurstaðan og þær tefla til þrautar á morgun!

Anna Muzyhuk (2504) – Tan Zhongyi (2523)

Anna var eiginlega aldrei í vandræðum í dag og ef eitthvað er hafði hún betri stöðu. Jafnteflið öruggt og þar sem hún vann í gær þá hefur hún tryggt sér þriðja sætið og sæti á kandídatamóti kvenna.

Heimsbikarmótið heldur áfram á morgun þegar tefldir verða bráðabanar hjá Fabi og Pragga annarsvegar og svo í úrsitum kvenna.

Upptaka af útsendingu dagsins:

- Auglýsing -